Andlát: Magnús Óskarsson kennari á Hvanneyri

Magnús Óskarsson.
Magnús Óskarsson.

Magnús Óskarsson, kennari við Bændaskólann á Hvanneyri, lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 28. desember sl. Hann varð 92 ára.

Magnús fæddist á Saurum í Hraunhreppi í Mýrasýslu 9. júlí 1927. Foreldrar hans voru Óskar Eggertsson, bústjóri í Kópavogi og síðar húsvörður við barnaskólann á Kársnesi, og Guðrún Einarsdóttir húsfreyja.

Hann útskrifaðist sem búfræðikandídat frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1953. Hann var aðstoðarmaður við tilraunastöðina Askov í Danmörku, las sem óreglulegur nemandi við Búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og var síðar við landbúnaðarháskóla og stofnanir í öðrum löndum.

Ævistarf Magnúsar var kennsla við Bændaskólann á Hvanneyri, síðar Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann var kennari þar frá árinu 1955 til ársins 1997 að hann lét af störfum vegna aldurs. Hann var yfirkennari bændadeildar og tilraunastjóri um árabil. Þá sat hann í tilraunaráði landbúnaðarins og búfræðslunefnd. Áburðarfræði var aðalgrein Magnúsar og er hann höfundur greina og kennslubóka í faginu og fleiri kennslugreinum. Einnig var hann mikill áhugamaður um matjurtarækt og vann að tilraunum og fræðslu á því sviði.

Eftir að Magnús lét af störfum á Hvanneyri kenndi hann við Garðyrkjuskóla ríkisins og var ráðunautur hjá Áburðarverksmiðju ríkisins.

Magnús var í mörg ár fulltrúi í hreppsnefnd Andakílshrepps og eitt ár formaður Náttúruverndarsamtaka Vesturlands.

Magnús bjó í Kópavogi eftir að hann lét af störfum á Hvanneyri. Útför hans verður gerð frá Kópavogskirkju 22. janúar nk. kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert