Jólin kvödd með samkomum víða um land

Jólasveinarnir kvöddu mannabyggð í Vestmannaeyjum heldur snemma þetta árið því …
Jólasveinarnir kvöddu mannabyggð í Vestmannaeyjum heldur snemma þetta árið því ÍBV hélt þrettándagleði sína í gærkvöldi, þremur dögum fyrir síðasta dag jóla. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Jólin verða kvödd með samkomum víða um land um helgina og á þrettándanum sem nú ber upp á mánudag. Hefð er fyrir því að efna til útiskemmtana með brennu, dansi og söng. Þar koma fram álfar, tröll og jólasveinar.

Fólk kemur saman við brennurnar með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta- og álfasöngva.

Í Vestmannaeyjum er hátíðin þegar hafin og var þrettándagleði ÍBV og Íslandsbanka haldin í gærkvöldi með flugeldasýningu, blysför og álfabrennu. Kvöldið áður var söngskemmtun í Höllinni.

Flestar samkomurnar verða á þrettándanum sjálfum á mánudag. Svo tekin séu nokkur dæmi þá verður þrettándagleði í Hlöðunni í Gufunesbæ í Grafarvogi. Hefst samkoman kl. 17 og klukkutíma síðar verður kveikt í brennu. Í Hafnarfirði er samkoman á Ásvöllum og hefst kl. 18 og lýkur með flugeldasýningu kl. 19. Í Reykjanesbæ hefst samkoman með blysför frá Myllubakkaskóla kl. 18 að hátíðarsvæði við Hafnargötu 8. Þar verður brenna og boðið upp á kakó. Að auki býður Björgunarsveit Suðurnesja upp á flugeldasýningu. Í Mosfellsbæ hefst samkoman með blysför frá Miðbæjartorginu kl. 17:30. Boðið er upp á brennu og flugeldasýningu.

Mæti í búningum

Á Akranesi verður þrettándabrenna við þyrlupallinn á Jaðarsbökkum. Blysför þangað hefst við Þorpið kl. 17. Eftir brennu er boðið í íþróttahúsið þar sem tilkynnt verður um val á íþróttamanni ársins. Á Selfossi verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20 að brennustæði á tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt verður í þrettándabálkesti. Einnig verður flugeldasýning. Bæjarbúar eru hvattir til þess að mæta í trölla-, álfa- eða jólasveinabúningum. Í Ólafsvík verður gengið kl. 18 frá Pakkhúsinu að brennu rétt innan við félagsheimilið á Klifi. Flugeldasýning verður við brennuna. Á Húsavík verður efnt til brennu við Sandvík kl. 17. Grímuball verður í Skúlagarði eftir brennuna. Á Siglufirði hefur þrettándagleði á mánudag verið frestað vegna ofankomu og slæmrar spár.

Samkomur um helgina

Akureyringar taka forskot á sæluna með þrettándagleði Þórs í dag kl. 16. Verður hún á planinu við Hamar og hefst með blysför frá Glerárskóla. Í Borgarnesi verður samkoman kl. 16 á morgun, sunnudag, í Hjálmakletti þar sem tilkynnt verður um kjör á íþróttamanni ársins. Síðan verður farin kyndilganga að Englendingavík þar sem boðið er upp á flugeldasýningu. Einnig verður þrettándagleði á Ísafirði á morgun kl. 14 á sal Grunnskólans. Sýnd verða brot úr leikritum og flutt álfa- og þrettándaljóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert