Andlitið datt af starfsfólkinu

Karolina Gruszka í hlutverki sínu í Gullregni.
Karolina Gruszka í hlutverki sínu í Gullregni. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Þegar hún kom hingað í fyrsta skipti til æfinga og undirbúnings fórum við nokkrum sinnum saman á kaffihús í miðborginni og það brást ekki að andlitið datt af starfsfólkinu. Það trúði ekki að Karolina Gruszka væri stödd á Íslandi.“

Þetta segir Ragnar Bragason kvikmyndaleikstjóri en pólska leikkonan Karolina Gruszka fer með stórt hlutverk í nýjustu mynd hans, Gullregni, sem frumsýnd verður á föstudaginn kemur. Eins og við þekkjum þá starfa margir Pólverjar á kaffi- og veitingahúsum í Reykjavík.

Karolina hafði aldrei komið til Íslands og talaði að vonum ekki stakt orð í íslensku. Hlutverkið var því mikil áskorun fyrir hana en persóna hennar tjáir sig eingöngu á íslensku í myndinni. Og Karolina þurfti ekki aðeins að læra og skilja sínar línur, heldur líka línur mótleikaranna til að geta brugðist eðlilega við. Henni til halds og trausts á æfingaferlinu var Jasek Godek, sem talar bæði tungumál og hefur um árabil verið lykilþýðandi á íslenskum skáldskap yfir á pólsku, auk þess að vera vanur leikhúsmaður. „Þetta tókst einstaklega vel og Karolina vann þrekvirki; gerði hlutverkið algjörlega að sínu. Hún náði ótrúlegu valdi á textanum en hún lærði línurnar sínar meira eins og músík en tungumál,“ segir Ragnar. 

Ragnar Bragason leikstjóri.
Ragnar Bragason leikstjóri. mbl.is/RAX


Spurður hvaðan sagan sé sprottin svarar Ragnar því til að hann sé í grunninn að fjalla um fjölskyldu og samskiptin innan hennar. „Án þess að ég ætli mér það þá verða fjölskyldur yfirleitt miðlægar í mínum verkum. Ég skal ekki segja hvað veldur, það er fyrir aðra að sálgreina,“ segir hann brosandi. „Ætli megi ekki líka segja að Gullregn fjalli um fordóma og ofbeldi í ýmsum myndum. Einskonar hringrás ofbeldis. Sprettur ofbeldi ekki gjarnan af fordómum? Annars er ekki alltaf gott að segja hvort kemur á undan, eggið eða hænan.“

Með önnur helstu hlutverk í Gullregni fara Sigrún Edda Björnsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir og Hallgrímur Ólafsson en myndin byggir á samnefndu leikriti eftir Ragnar sjálfan.

Nánar er rætt við Ragnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »