Klaustur bar breytir um nafn

Orðið Klaustur hefur verið fjarlægt úr merki barsins.
Orðið Klaustur hefur verið fjarlægt úr merki barsins. mbl.is/Árni Sæberg

Barinn Klaustur í Kirkjustræti mun á næstunni skipta um nafn. Frá þessu er greint á fésbókarsíðu barsins. Segir þar að gamla nafnið sé kvatt þar sem breytingar séu í fram undan og starfsfólk horfi til framtíðar, en nýja nafninu hefur enn ekki verið uppljóstrað.

Barinn komst í sviðsljósið fyrir rúmu ári er birtar voru upptökur af samtali sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins, sem nú eru allir í Miðflokknum við hornborð á barnum. Vakti munnsöfnuður þingmannanna töluverða athygli og varð tilefni ótal fréttaskrifa. Má til gamans geta að hér á mbl.is hafa 285 fréttir verið skrifaðar um málefnið, að þessari meðtalinni.

Í samtali við Vísi stuttu eftir að málið komst í hámæli sagði C. Lísa Óskarsdóttir, þáverandi rekstrarstjóri barsins, að umfjöllunin hefði skilað sér í stóraukinni aðsókn á staðinn, og ekki skort brandarakarlana sem vísuðu í málið og spyrðu hvar þeim væri nú óhætt að setjast án þess að þeir væru teknir upp.

Eitthvað virðast vinsældir barsins hafa dalað að undanförnu, og hefur mbl.is heimildir fyrir því að nýr rekstrarstjóri vilji losna við þann þunga kross sem fylgir því að vera í sífellu bendlaður við Klausturþingmennina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert