Ómögulegt að segja hvort Rima finnist

Veður hefur ekki verið björgunarsveitarmönnum hagstætt síðustu daga.
Veður hefur ekki verið björgunarsveitarmönnum hagstætt síðustu daga. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert verður leitað að Rimu Grun­skyté Feliks­as­dótt­ur á næstu dögum. Henn­ar hef­ur verið saknað frá 20. des­em­ber. Talið er að hún hafi fallið í sjó­inn við Dyr­hóla­ey en þar fannst bíll henn­ar.

Ákvörðun um næstu leit hefur ekki verið tekin, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hann gerir ráð fyrir því að Rimu verði leitað aftur eftir hálfan mánuð eða þrjár vikur og þá gengið eftir fjörum. 

Ekkert veður er í kortunum fyrir leit næstu daga, að sögn Sveins. Aðspurður segir hann ómögulegt að segja til um það hvort Rima finnist eður ei. 

Rimu var síðast leitað í gær en þá fór hópur björgunarsveitarmanna og leitaði í fjöru frá Jökulsá að Bakkafljóti, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

Óvíst með leit að Andris

Engin ákvörðun hefur verið tekin um leit að Andris Kalvans sem ekkert hefur spurst til síðan 28. des­em­ber, að sögn Davíðs, en hans var síðast leitað síðastliðinn föstudag vegna óveðurs um síðastliðna helgi. Aukinn kraftur var settur í leitina á föstudag vegna vitneskju um komandi óveður.

„Báðar aðgerðir eru komnar á það stig að framhaldið er algjörlega í höndum lögreglu,“ segir Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert