Sannfærður um að sá hæfasti sé í starfi þjóðgarðsvarðar

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður Þingvallanefndar.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður Þingvallanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður Þingvallanefndar, segir að hann velkist ekki í vafa um að hæfasti einstaklingurinn sinni starfi þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, þrátt fyrir að Ólína Þorvarðardóttir hafi nú samið við ríkið um 20 milljóna króna bótagreiðslu vegna brots ríkisins í hennar garð við ráðninguna.

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niður­stöðu síðasta vor að jafn­rétt­is­lög hefðu verið brot­in þegar gengið var fram ­hjá Ólínu við skip­an þjóðgarðsvarðar árið 2018, en þá var Einar Á. E. Sæmundsen ráðinn í starfið.

Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að sökum þess að Þingvallanefnd hafi ákveðið að una úrskurði kærunefndar jafnréttismála, að fengnum ráðleggingum frá embætti ríkislögmanns, hafi málið farið áfram til embættis ríkislögmanns sem hafi samið um bótagreiðsluna til Ólínu.

„Ég er enn þá sannfærður um það að hæfasti einstaklingurinn var ráðinn, það er alveg óumdeilt. Kærunefndin var aldrei að fjalla um það, heldur bara það að ekki var sýnt fram á þetta á gagnsæjan hátt,  hvernig við komumst að því að hann væri hæfari,“ segir Vilhjálmur og er svo inntur eftir rökstuðningi fyrir því af hverju Einar hafi að hans mati verið hæfari.

„Fyrst og fremst þá náttúrulega skoraði hann hærra í hlutlæga matinu og svo skoraði hann hærra, að mati meirihluta nefndarinnar, í huglæga matinu. Svo er hann náttúrulega með sérhæfða menntun í starfið sem landslagsarkitekt frá skóla í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í þjóðgörðum og var með mjög langa og farsæla starfsreynslu á Þingvöllum. Hann er líka með mjög góða nærveru og færni í mannlegum samskiptum sem skiptir mjög miklu í þessu huglæga mati,“ segir Vilhjálmur.

Einar Á. E. Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Einar Á. E. Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi

Það sem skorti upp á í ráðningarferlinu, að mati kærunefndarinnar, var að huglægt mat nefndarmanna, sem eru sjö þingmenn, væri skráð sérstaklega niður. Stjórnarþingmenn völdu Einar en stjórnarandstöðuþingmenn Ólínu og varð nokkuð ósætti í nefndinni þegar ákvörðunin var tekin.

„Þegar hún kærir þetta til þessarar úrskurðarnefndar jafnréttismála hefur úrskurðarnefndin ekki skriflegan rökstuðning nefndarmanna fyrir huglæga matinu og þar af leiðandi dregur þá ályktun að við höfum brotið á henni á grundvelli kyns, af því að þetta er ekki skráð og við gátum ekki sýnt fram á það á gagnsæjan hvernig huglæga matið var metið,“ segir Vilhjálmur.

Dómsmál hefði mögulega engu skilað

Að una úrskurði kærunefndarinnar var ekki óumdeilt hjá Þingvallanefnd, en ákveðið var að gera það á endanum eftir að ráðleggingar bárust frá embætti ríkislögmanns um að sennilega borgaði það sig ekki að fara í mál fyrir dómstólum sem hefði snúist um það, að sögn Vilhjálms, hvort nauðsynlegt hefði verið að skrifa niður huglægt mat hvers og eins nefndarmanns í Þingvallanefnd vegna ráðningarinnar.

„Það mál hefði getað brugðið til beggja vona og það var okkar heildstæða mat að það myndi ekki borga sig að eyða tíma og fjármunum í það hvort það ætti að skrá huglæga matið niður eða ekki,“ segir Vilhjálmur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir segir að reikningur skattborgara hefði verið lægri …
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir segir að reikningur skattborgara hefði verið lægri og jafnvel horfið alveg ef hún hefði fengið afsökunarbeiðni frá meirihluta Þingvallanefndar, eða ef formaður nefndarinnar hefði sagt af sér. mbl.is/Hari

Hann hljómar eilítið ósáttur við ráðgjafarfyrirtækið Capacent sem annaðist ráðningarferlið og segir að væntanlega verði horft til þess fordæmis sem sett var með úrskurði kærunefndar við ráðningar hins opinbera í framtíðinni.

„Að sjálfsögðu munum við læra af þessu og væntanlega eru einhverjir ráðningarferlar sem gera ráð fyrir að þetta sé skráð, en ég veit bara ekki af hverju ráðgjafarfyrirtækið gerði það ekki í þessu tilfelli,“ segir Vilhjálmur.

„Reikningur“ Ólínu hefði verið lægri ef nefndin hefði beðist afsökunar

Ólína Þorvarðardóttir tjáir sig um málið á Facebook í dag. Þar segir hún að sú upphæð af bótagreiðslu ríkisins sem til hennar falli eftir skatt verði um 13 milljónir króna, en um er að ræða greiðslu sem samsvarar 18 mánaða launum þjóðgarðsvarðar.

„Ég átti þess kost að taka málið fyrir dóm en ákvað að láta staðar numið og taka sáttatilboði ríkislögmanns. Ríkið leggur alltaf ískalt mat á stöðu sína og ég þykist vita að ef ríkið hefði talið sig eiga góða von um að hrinda af sér málsókninni hefðu þessar bætur ekki staðið til boða,“ skrifar Ólína, sem segir að þessi „reikningur“ hefði aldrei fallið á skattgreiðendur „hefðu þeir kjörnu fulltrúar sem skipa meirihluta Þingvallanefndar vandað verk sín betur og/eða gengist við ábyrgð sinni þegar ljóst varð að þeir höfðu brotið lög.

„Það á ekki að vera ódýrt fyrir hið opinbera að brjóta á einstaklingi - en það á auðvitað ekki að gerast. Hjá öllu þessu hefði mátt komast ... jafnvel bara ein afsökunarbeiðni hefði getað lækkað þennan reikning töluvert. Og hefði formaður nefndarinnar séð sóma sinn í að axla ábyrgð og segja af sér formennsku eftir að kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði s.l. vor að brotið hefði verið á mér, þá hefði sú gjörð jafnvel afmáð þennan reikning með öllu. Hvorugt gerðist,“ segir Ólína, sem segist nú ætla að reyna að gleyma þessu máli og óskar Einari Sæmundsen þjóðgarðsverði velfarnaðar í hans störfum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert