Skipstjórinn fékk heimsókn yfir jólin

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja. mbl.is/​Hari

Arngrímur Brynjólfsson, íslenskur skipstjóri sem handtekinn var í Namibíu 22. nóvember, sætir enn farbanni frá Namibíu. 

Arngrími var gert að leggja inn vegabréf sitt og var máli hans frestað fram í lok janúar. Samkvæmt Björgólfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra Samherja, hefur engin framþróun orðið í máli Arngríms. Hann er enn vegabréfslaus og í farbanni frá Namibíu. 

„Eini punkturinn sem við höfum er lok janúar, þá á dómurinn að koma saman aftur,“ segir Björgólfur í samtali við mbl.is. 

„Hann er ekki einn,“ segir hann og bætir við að fjölskylda Arngríms hafi verið hjá honum í Namibíu yfir hátíðirnar í desember. „Við reynum að hugsa um okkar fólk.“

Í nóvember sendi Arn­grím­ur frá sér yfirlýsingu til fjöl­miðla eft­ir að hon­um var sleppt úr haldi þar sem fram kom að á 49 ára ferli hans til sjós hefði hann aldrei verið sakaður um að brjóta af sér á neinn hátt og að það væru „mik­il von­brigði“ fyr­ir hann að vera sakaður um þessi brot, þar sem veiðiferðin átti að verða hans síðasta á ferl­in­um.

Arngrímur sætir farbanni vegna meintra ólöglegra veiða á grynningum þar til máls hans hefur verið tekið fyrir. Þá var togarinn Heinaste, þar sem Arngrímur er skipstjóri, kyrrsettur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert