Djúp og víðáttumikil lægð á leiðinni

Kort/Veðurstofa Íslands

Gefnar hafa verið út viðvaranir um allt land vegna djúprar og víðáttumikillar lægðar sem fer norðaustur yfir landið í dag. Gul viðvörun tekur gildi við Breiðafjörð klukkan 8 og 9 á Vestfjörðum. Þar er útlit fyrir hvassa norðaustanátt með snjókomu. 

„Í dag fer mjög djúp og víðáttumikil lægð norðaustur yfir landið. Í kjölfar hennar snýst vindur í suðvestanstorm eða -rok með éljum á sunnanverðu landinu eftir hádegi og einnig á Norður- og Austurlandi í kvöld. En á Vestfjörðum er útlit fyrir hvassa norðaustanátt með snjókomu. Þar fer að lægja síðdegis.

Vestan 18-25 m/s og él á morgun, en úrkomulítið austanlands. Frost 0 til 5 stig. Minnkandi suðvestanátt annað kvöld, en aftur stormur vestan til á landinu á fimmtudag með áframhaldandi éljagangi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Eldingahætta á sunnan- og vestanverðu landinu

Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk um að fara varlega og huga að lausamunum og byggingarverktaka að gæta að svæðum sínum. Með lægðinni sem stefnir á Reykjanes í dag, þriðjudag, eykst veðuráraun á raforkukerfið. Eldingahætta verður með meginskilum lægðarinnar einkum suðvestan- og sunnanlands. Með vestanáttinni í kjölfarið er reiknað með umtalsverðu álagi um sunnan- og vestanvert landið af völdum vinds en samkvæmt spám verður vindur mikill. 

Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 15 í dag og gildir þangað til 9 í fyrramálið. „Vestan 15-23 m/s með éljagangi og skafrenningi og á köflum mjög lítið skyggni. Færð getur spillst.“

Á Suðurlandi er spáð hvassviðri eða stormi og tekur gul viðvörun gildi kl. 14:00 og gildir til 10 í fyrramálið. Suðvestan 15-25 m/s, hvassast í Vestmannaeyjum og með suðurströndinni. „Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Útlit fyrir rigningu eða slyddu í fyrstu, en síðan él og hríðarveður um kvöldið og nóttina.

Faxaflói - hvassviðri eða stormur — 7. jan. kl. 15:00 — 8 jan. kl. 10:00. „Suðvestan 15-25 m/s og él. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Éljagangur og lélegt skyggni, erfið akstursskilyrði.“

Við Breiðafjörð er spáð hríð en gul viðvörun tekur gildi klukkan 08:00 og gildir til 12:00. „Norðaustan 15-23 m/s og slydda eða snjókoma með köflum. Lélegt skyggni og versnandi akstursskilyrði.“

Við Breiðafjörð tekur ný gul viðvörun gildi klukkan 19 í kvöld og gildir til 1:30 í nótt. „Vestan 18-25 m/s sunnan til, éljagangur með lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi frá klukkan 9 til klukkan 23:30. „Norðaustan 18-23 m/s og snjókoma eða skafrenningur og á köflum mjög lítið skyggni, einkum á fjallvegum. Ekkert ferðaveður.“

Strandir og Norðurland vestra, þar tekur gul viðvörun gildi klukkan 18:00 og gildir til 02:00 í nótt. „Suðvestan 18-25 m/s og él. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk hugi að lausamunum.“

Norðurland eystra, þar er spáð hvassviðri eða stormi og tekur gul viðvörun gildi klukkan 20 í kvöld og gildir til 4 í nótt. „Suðvestan 18-23 m/s og snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk hugi að lausamunum.“

Austurland að Glettingi, þar tekur gul viðvörun gildi klukkan 19:00 og gildir til 7 í fyrramálið. „Suðvestan 18-25 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk hugi að lausamunum.“

Á Austfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 19:00 og gildir til 8 í fyrramálið. „Suðvestan 18-25 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk hugi að lausamunum.“

Suðausturland. Gult ástand frá klukkan 15 til klukkan 13 á morgun. „Hvassviðri eða stormur, 15-25 m/s. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum í Mýrdal og í Öræfum, sem geta  verið hættulegar fyrir vegfarendur á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Útlit er fyrir rigningu eða slyddu í fyrstu, en síðan stöku él um kvöldið og nóttina.“

Miðhálendið  — gul viðvörun 7. jan. kl. 15:00 — 8. jan. kl. 15:00. „Suðvestan 20-28 m/s og blindhríð. Ekkert ferðaveður.“

Raforkufyrirtæki eru með viðbúnað vegna hvassviðrisins og sérstaklega vegna hættu á seltu, ísingu og eldingum. Víða eru opin tengivirki og línur sem ísingin getur sest á og valdið útslætti og skemmdum.

Búist er við að hvassviðrið hafi fyrst áhrif á Reykjanesi en færist síðan yfir Vestur- og Suðurland.

Líkur á straumleysi

Rarik telur miklar líkur á að veðrið muni hafa áhrif á afhendingu rafmagns. Þau svæði sem Rarik telur líklegast að verði fyrir truflunum eru á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Starfsmenn Rarik eru í viðbragðsstöðu til að bregðast við hugsanlegum bilunum á dreifikerfinu.

Í tilkynningu Rarik er minnt á að 65% dreifikerfis fyrirtækisins eru komin í jörð. Loftlínurnar sem enn eru uppi séu hins vegar viðkvæmar fyrir áhrifum veðursins sem spáð er næstu daga og verði vaktaðar sérstaklega.

Slökkviliðin til aðstoðar

„Við erum tilbúin,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. Hún segir reiknað með að einhver tengivirki verði mönnuð til að fyrr sé hægt að grípa inn í ef eitthvað verður að. Grannt er fylgst með veðurspám enda ræðst það af þeim hvar mannskapurinn verður staðsettur. Þá segir Steinunn að slökkviliðin hafi verið virkjuð og muni aðstoða starfsmenn Landsnets við að hreinsa opnu tengivirkin af seltu og ísingu.

Hún getur þess einnig að hætta sé á eldingaveðri nú árdegis, áður en lægðin kemur inn á landið.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðaustan 15-23 m/s NV-til í dag, annars hægari vindur. Slydda eða rigning sunnan heiða og hiti 1 til 7 stig, en snjókoma með köflum og hiti um frostmark fyrir norðan.
Gengur síðdegis í suðvestan 18-25 með éljum um landið S-vert og einnig á N- og A-landi í kvöld.
Vestan 18-25 á morgun, en suðvestan 13-18 annað kvöld. Víða él, þó síst A-lands. Frost yfirleitt 0 til 5 stig.

Á miðvikudag:
Vestan og suðvestan hvassviðri eða stormur og víða él, en úrkomulítið á SA- og A-landi. Vægt frost.

Á fimmtudag:
Suðvestan 18-23 m/s og él, en heldur hægari og léttskýjað A-lands. Frost 0 til 7 stig.

Á föstudag:
Austlæg átt og víða snjókoma. Rigning eða slydda þegar kemur fram á daginn S- og A-lands og hlánar þar.

Á laugardag:
Norðvestanátt og snjókoma N-lands, en stöku él S-til á landinu. Frost 0 til 7 stig.

Á sunnudag:
Norðanátt og snjókoma eða él um landið norðanvert, en þurrt syðra. Kalt í veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með éljum N- og A-til á landinu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert