Hugur forstjóra LSH hjá aðstandendum

Páll segir að Landspítalinn sé ódýr og sennilega of ódýr.
Páll segir að Landspítalinn sé ódýr og sennilega of ódýr. mbl.is/Golli

„Fyrir það fyrsta vil ég segja að hugur okkar er hjá aðstandendum. Það er alveg ljóst að hvernig sem þessu máli, sem er í skoðun, er háttað þá er ljóst að í miklu álagi er hætta á frávikum. Það er auðvitað áhyggjuefni sem og aðstæður allra á bráðamóttöku þegar verst lætur,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, um dauðsfall sem varð í kjölfar þess að maður var sendur of snemma heim af bráðamóttöku.

Atvikið var ekki skráð þá sem alvarlegt atvik. Páll segir að ýmsir sérstakir þættir, sem hann útskýrir ekki sérstaklega, hafi valdið því að atvikið hafi ekki verið skráð en það sé til skoðunar hvers vegna nákvæmlega það hafi ekki verið gert.

Vandi á bráðamót­töku komst aft­ur í há­mæli umræðunn­ar eft­ir að yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala greindi frá því að þar væri stór­slys í aðsigi. Á sunnudag greindi RÚV frá því að maður sem þjáðist af krabba­meini hefði verið send­ur of snemma heim af bráðamót­töku og hefði í kjöl­farið lát­ist.

„Varðandi útskriftarvandann þá er 1% af sjúklingunum með 22% af …
„Varðandi útskriftarvandann þá er 1% af sjúklingunum með 22% af legudögum,“ segir Páll. mbl.is/Hari

Páll segir að atvikaskráning á spítalanum sé almennt að batna. Skráningum fjölgar á milli ára og alvarlegum atvikum fækkar. Spurður hvort rekja megi fleiri dauðsföll til álags á bráðamóttöku segir Páll að fyrrnefnt mál sé til skoðunar.

„Það er alveg ljóst að þegar álagið er sem mest spilar það inn í áhættuna á frávikum. Ég held að það sé erfitt að fullyrða um það hvort þetta hafi áhrif annars staðar en alvarlegum atvikum, eins og þau eru skilgreind samkvæmt sérstöku atvikaskráningakerfi, hefur ekki fjölgað.“

Vill aðra skammtímalegudeild

Páll segir að Landspítalinn sé ódýr og sennilega of ódýr. Spítalinn þurfi meira fjármagn til þess að bregðast við vanda heilbrigðiskerfisins sem meðal annars birtist í þéttsetinni bráðamóttöku sem mikið álag er á.

Páll segir að vandi bráðamóttöku sé kerfisvandi, vandi heilbrigðiskerfisins í heild, sem skorti starfsfólk og hjúkrunarrými. Unnið sé að lausn á vandanum en Páll nefnir sérstaklega tvær mikilvægar lausnir, að auka nýliðun heilbrigðisstarfsfólks og að koma á fót annarri skammtímalegudeild innan Landspítalans, eins og landlæknir hefur mælt með.

„Það er þörf á annarri slíkri deild. Hún verður ekki opnuð án fjármagns en ef við fáum það getum við farið að skipuleggja húsnæði og ráða fólk.“

1% sjúklinga eiga 22% legudaga

Páll segir að horfa þurfi á bráðalausnir, lausnir til meðallangs tíma og langtímalausnir til þess að leysa vanda heilbrigðiskerfisins, sem m.a. birtist á bráðamóttöku spítalans. Í þeim efnum nefnir hann helst uppbyggingu hjúkrunarrýma og nýliðun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og fleiri fagstétta. Staðan sem sé nú komin upp er að Páls sögn vegna álagsaukningar sem Landspítalinn hefur ekki getað brugðist við að fullu vegna skorts á fjármagni. 

Annríki á bráðamóttöku er helst tilkomið vegna þess að fólk dvelur þar lengur en það ætti að gera, m.a. vegna skorts á meðferðarplássum á spítalanum þar sem fyrir eru aðrir sjúklingar sem bíða eftir plássi annars staðar í heilbrigðiskerfinu, eins og til dæmis á hjúkrunarheimilum.

„Varðandi útskriftarvandann þá er 1% af sjúklingunum með 22% af legudögum. 95% sjúklinganna eru hins vegar skemur en 30 daga á spítalanum, meðallegutími þeirra eru 4,7 dagar. Hann hefur lækkað ár frá ári. Við erum mjög skilvirk í að sinna því fólki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert