Öll alvarleg atvik á að tilkynna

Alma Möller landlæknir segir að samkvæmt upplýsingum um bráðadeild Landspítala …
Alma Möller landlæknir segir að samkvæmt upplýsingum um bráðadeild Landspítala sem síðast voru uppfærðar í október hafi bráðamóttökunni tekist að sinna bráðahlutverki sínu vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Embætti landlæknis hefur kallað eftir uppfærðum upplýsingum um bráðadeild Landspítala í kjölfar frétta um að sjúklingur hafi látist á heimili sínu í nóvember sl. þremur dögum eftir ótímabæra útskrift og ranga greiningu á spítalanum. Þetta staðfestir Alma D. Möller landlæknir í samtali við Morgunblaðið en embættið gerði síðast úttekt á bráðamóttökunni í október.

Segir hún að fyrrnefnt atvik hafi enn ekki verið tilkynnt til embættisins og kveðst hafa haft samband við Landspítala snemma í gærmorgun til að spyrjast fyrir um það hvers vegna það hafi ekki verið tilkynnt. Hún staðfestir að þegar atvikið verði tilkynnt muni embættið fara í að skoða málið.

„Öll svona alvarleg atvik á að tilkynna til okkar og við skoðum þau. Við vorum bara að heyra þetta í fyrsta skipti,“ segir Alma.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga, lýsti í viðtali í Læknablaðinu miklum áhyggjum af stöðunni á bráðamóttöku spítalans. Í viðtalinu sagði Már m.a. að mikill þrýstingur væri á að útskrifa sjúklinga sem hefði orðið til þess að sjúklingur lést á heimili sínu. Aðspurð segist Alma ekki hafa fengið vísbendingar um slíkan þrýsting.

Ekki einu um að kenna

„Það er auðvitað þannig að ef það koma upp alvarleg atvik þá er sjaldan eða aldrei einhverju einu um að kenna. Það er margt sem spilar saman sem við köllum kerfisþætti og það er allt þetta sem við erum búin að vera að tala um. Þar er náttúrlega ástæðan sem búin er að skapast á gríðarlega mörgum árum, t.d. að uppbygging á hjúkrunarheimilum hefur verið of hæg og við vitum að það vantar hjúkrunarfræðinga, það er reyndar alþjóðlegur vandi. Maður hefði viljað sjá hraðari viðbrögð til að bregðast við þessu,“ segir Alma.

Hún segir að samkvæmt upplýsingum um bráðadeild Landspítala sem síðast voru uppfærðar í október hafi bráðamóttökunni tekist að sinna bráðahlutverki sínu vel, vandinn liggi í að sjúklingar þurfi að bíða á bráðamóttökunni of lengi eftir legudeildarplássi.

„Það er fyrst og fremst vegna þess að það vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða,“ segir Alma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »