Vélsleðahópur í hrakningum við Langjökul

Mynd úr safni af vélsleðafólki á Langjökli og er ekki …
Mynd úr safni af vélsleðafólki á Langjökli og er ekki af hópnum sem er á jöklinum núna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi voru kallaðir út fyrir skemmstu til að aðstoða 40 manna vélsleðahóp sem lenti í hrakningum á Skálpanesi við rætur Langjökuls. Blindbylur gekk yfir svo hópurinn þurfti að grafa sig í fönn og bíða eftir aðstoð.

Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Lögreglan á Suðurlandi og björgunarsveitir á svæðinu eru á leiðinni á vettvang til að reyna að koma fólkinu í næsta skála í Skálpanesi en einn bíll hefur þegar náð að staðsetja hópinn og er kominn að fólkinu.

Enginn úr hópnum er týndur, allir við hestaheilsu og í framhaldinu verður reynt að koma þeim í skjól að sögn Sveins Kristjáns.

„Það er búið að kalla út allar björgunarsveitir í Árnessýslu og á Suðurlandi sem og alla snjóbíla í Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að fyrstu hópar hafi lagt af stað rétt upp úr klukkan átta og séu að nálgast Gullfoss. Leiðin sé tiltölulega greiðfær og því ætti að ganga nokkuð vel að komast að hópnum.

Fréttin var uppfærð klukkan 21:11. 

Hópurinn er nálægt Skálpanesi við rætur Langjökuls.
Hópurinn er nálægt Skálpanesi við rætur Langjökuls. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina