Lögregla rannsaki hvers vegna farið var

Um 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum á 57 tækjum.
Um 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum á 57 tækjum. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Gera má ráð fyrir því að lögreglan á Suðurlandi hefji rannsókn á því hvers vegna farið var með hóp ferðafólks í vélsleðaferð á Langjökul í gær þrátt fyrir veðurviðvaranir.

Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og forsvarsmaður samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð sem virkjuð var í gærkvöldi vegna hóps vélsleðafólks sem lenti í hrakningum við rætur Langjökuls í gær.

Um var að ræða 39 manna hóp sem var í vélsleðaferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis. Útkall barst á áttunda tímanum í gærkvöldi og voru fyrstu hópar björgunarsveita komnir að fólkinu upp úr miðnætti. Voru flestir orðnir hraktir, blautir og kaldir, enda hafði ferðin hafist klukkan 13. Hópurinn var fyrst ferjaður í skála ferðafélagsins í Geldingafelli og þaðan í Gullfosskaffi þangað sem allir voru komnir klukkan 6 í morgun, en flutningar gengu hægt vegna vonskuveðurs og slæms skyggnis. Um 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum á 57 tækjum.

Að sögn Rögnvalds var samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð lokað klukkan 4 í nótt þegar ljóst var að allt var komið í ferli og voru aðgerðirnar þess í stað færðar á bakvakt Landsbjargar og almannavarnadeildar lögreglu.

Gul viðvörun ein og sér tilefni til að endurskoða ferðir

Aðspurður hvort ferðaþjónustufyrirtækinu hafi ekki mátt vera ljóst að ekkert ferðaveður yrði á svæðinu sagðist Rögnvaldur gera ráð fyrir því að atvikið yrði rannsakað. „Ég á ekki von á öðru en að lögreglan á Suðurlandi muni rannsaka þetta mál. Eftir því sem ég kemst næst var landið allt undir gulri viðvörun í gær og mér finnst það eitt og sér tilefni til að endurmeta allt svona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina