Rannsókn lögreglu hófst strax í gærkvöldi

Slæmt ferðaveður var á svæðinu og snýr rannsókn lögreglu að …
Slæmt ferðaveður var á svæðinu og snýr rannsókn lögreglu að því hvers vegna farið var af stað í ferðina. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Lögreglan á Suðurlandi hefur hafið rannsókn á aðdraganda þess að óska þurfti eftir aðstoð björgunarsveita vegna 39 ferðamanna á vegum íslensks ferðaþjónustufyrirtækis sem lentu í hrakningum við rætur Langjökuls í gærkvöldi. Gul veðurviðvörun var í gildi fyrir landið allt og hafði óvissustigi verið lýst yfir á Suðvesturlandi.

Að sögn Elís Kjartanssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Suðurlandi, hefur lögreglan þegar fengið framburð allra erlendu ferðamannanna, auk þess sem rætt var við starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins á staðnum.

„Rannsóknin hófst í sjálfu sér strax í gærkvöldi,“ segir Elís, en einn rannsóknarlögreglumaður fór á vettvang í gærkvöldi og ræddi við ferðamenn og starfsmenn. Formlegar skýrslutökur af starfs- og forsvarsfólki fyrirtækisins fara svo fram á næstu dögum. 

Elís segir ljóst að ferðamennirnir hafi verið í talsverðri hættu en að rannsóknin snúi að því hvernig það atvikaðist að ákveðið hafi verið að fara af stað þrátt fyrir veðurviðvaranir.

Í hættu á þessum stað í þessu veðri

Aðspurður hvort ekki liggi ljóst fyrir að þarna hafi fólki verið stefnt í hættu segir Elís: „Fólkið var alla vega statt í hættu, á þessum stað í þessu veðri, alveg klárlega. Svo er rannsóknarefnið hvað kom til þess að það var þarna og hvaða forsendur voru fyrir því að fara ferðina yfir höfuð, og svo framvegis.“

„Ef fólki hefur vísvitandi eða af stórkostlegu gáleysi verið stefnt í hættu þá er hægt að draga menn til ábyrgðar og jafnvel refsingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert