Segir mannleg mistök hafa átt sér stað

Mannleg mistök urðu þess valdandi að ferðamenn urðu strandaglópar við rætur Langjökuls í gær. Fólkið verður beðið afsökunar í kvöld. Þetta segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland.

Alls lentu 39 ferðamenn í hremmingunum ásamt fjórum leiðsögumönnum. Fólkið þurfti að  grafa sig í fönn og bíða síðar meir í langan tíma í bílum eftir aðstoð björgunarsveita vegna óveðurs á svæðinu.

Afdrifarík ferð í íshelli 

Herbert tekur fram að vélsleðahópurinn hafi ekki verið uppi á jökli heldur á svæðinu á milli Geldingafells og Skálpaness. Ákvörðun um að fara í íshelli við rætur Langjökuls reyndist aftur á móti afdrifarík.

Öllum reglulegum vélsleðaferðum fyrirtækisins var aflýst í gær nema þessari. Ástæðan er sú að „veðrið upp frá var þokkalegt og gott skyggni,“ segir Herbert og bætir við að samkvæmt veðurspám átti veður ekki að versna fyrr en upp úr klukkan 15. „Þá ætluðum við að vera löngu búnir með þessa einu ferð.“

Hann segir að ákvörðun um að fara í ferðina í gær hafi ekki snúist um peninga heldur frekar um að „klára þessa ferð fyrir þetta fólk“ og bendir á að fyrirtækið hafi aflýst megninu af ferðum dagsins. Í fyrra aflýsti það til að mynda nítján sinnum öllum ferðum eins dags. Slíkt sé gert þegar talið er tilefni til.

Herbert lýsir ferðinni þannig að hópurinn hafi verið tuttugu mínútum of seinn af stað í ferðina. Sökum slæmrar færðar í átt að hellinum tók sú ferð lengri tíma en áætlað var. Sömuleiðis var stoppað of lengi inni í hellinum og mjög erfitt var að komast þaðan til baka.

„Tafirnar voru orðnar það miklar að þetta veður sem við vissum að væri á leiðinni skall á.“

Frá aðgerðum björgunarsveita.
Frá aðgerðum björgunarsveita. Ljósmynd/Þór Kjartansson

Snjótroðari bilaði 

Þegar ljóst var að hópurinn var að lenda í slæmu veðri ræsti fyrirtækið út sin eigin mannskap frá Flúðum sem ætlaði að mæta á jarðýtu og bílum og koma fólkinu í skjól. Einn leiðsögumannanna ætlaði einnig að sækja snjótroðara sem átti að geta ferjað allt fólkið en hann bilaði um tvo kílómetrum frá hópnum. Fyrir vikið sat starfsmaðurinn einn eftir í troðaranum.

Í staðinn leitaði fólkið skjóls í jarðýtunni og bílunum. Á þessum tímapunkti voru ellefu starfsmenn fyrirtækisins á staðnum.

Vissu hvar allir voru 

Voruð þið ekki hrædd um mannskapinn?

„Það var enginn týndur. Við vissum alltaf hvar allir voru allan tímann. Við vorum í samskiptum við leiðsögumenn í gegnum Tetra [stafræna talstöðvakerfið] en auðvitað fór um mann ónotatilfinning þegar tækin sem voru notuð til að ná í fólkið biluðu. Þess vegna leituðum við til björgunarsveita,“ greinir Herbert frá og segir að staðan hafi ekki verið komin á það stig að neinn hafi verið í lífshættu. „Þá hefðum við hringt miklu fyrr í viðbragðsaðila.“

Þrjú ár eru liðin síðan ferðamenn á vegum Mountaineers of Iceland lentu einnig í háska. Herbert segir það atvik ekki vera eins og í gær, þó að líkindi séu með þeim. Fyrirtækið hafi dregið lærdóm af fyrra atvikinu, komið upp ferilvöktunartæki, sem sýnir hvar allir eru, reist fullkomna veðurstöð við skála sinn, fleiri Tetra-stöðvar séu í umferð og að verklag hafi verið bætt.

Þurfið þið ekki að breyta málum enn frekar núna?

„Við þurfum að draga okkar lærdóm af þessu atviki og við munum klárlega gera það“

Ljósmynd/Landsbjörg

Biðja fólkið afsökunar 

Spurður hvort fyrirtækið hafi verið í samskiptum við ferðamennina í dag segir hann að einhver samskipti hafi verið í morgun þegar farið var með þá á hótel. Í kvöld ætla Herbert og félagar að hringja í fólkið og biðja það afsökunar á því sem gerðist.

Hvað varðar mögulega leyfissviptingu, eins og rætt hefur verið um í dag, kveðst Herberg vona að fyrirtækið haldi leyfinu til að það geti haldið áfram rekstri sínum. Reynt verður að fyrirbyggja að atvik sem þetta komi fyrir aftur. „Við höfum þróast mikið í gegnum árin og erum á allt öðrum stað en fyrir þremur árum, þrátt fyrir atvikið í gær. Þetta voru raunveruleg mannleg mistök í gær og tekin ákvörðun sem höfum kannski ekki átt að taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert