Voru aðeins um kílómetra frá skálanum

Ferðamennirnir sem björgunarsveitir aðstoðuðu við rætur Langjökuls í gærkvöldi og í nótt lentu í hrakningum aðeins um kílómetra frá skála ferðaþjónustufyrirtækisins í Geldingafelli. 

Slæmar aðstæður voru á svæðinu, mikill vindur og kóf, að sögn Odds Vals Þórarinssonar, sveitarstjóra Hjálparsveitar skáta í Reykjavík, sem tók þátt í björgunaraðgerðum í nótt. mbl.is náði tali af honum í höfuðstöðvum HSSR að Malarhöfða á tólfta tímanum, en þangað hafði ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland sótt ferðamennina skömmu áður.

Oddur Valur Þórarinsson, sveitarstjóri HSSR.
Oddur Valur Þórarinsson, sveitarstjóri HSSR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður hvort aðstæður hafi verið til að fara í vélsleðaferð á svæðinu segir Oddur að veðrið hafi verið ágætt þar fyrr um daginn. „Þau hafa kannski bara misst af glugganum. Það var ágætisveður þarna á tímabili.“

Ekki vel búin

Oddur tók á móti ferðamönnunum í skálanum í Geldingafelli. „Nei, ég myndir nú ekki segja það. Það var í vélsleðagöllum,“ segir Oddur spurður hvort ferðafólkið hafi verið vel búið. Hann staðfestir að nokkur börn hafi verið í hópnum en segir ferðamennina þó hafa verið ágætlega haldna. „Þau voru köld á fótunum aðallega og svolítið skelkuð.“

Þegar öllum hafði verið komið í skjól í Geldingafelli var svo hafist handa við að ferja hópinn, sem taldi 39 ferðamenn, niður í þjónustumiðstöðina við Gullfoss þar sem fram fór neyðarflokkun. Rauði krossinn og heilbrigðisstarfsfólk af Suðurlandi hlúði að ferðamönnunum sem voru svo komnir til Reykjavíkur, eins og áður segir, rétt fyrir hádegi.

Um 300 björgunarsveitarmenn komu að aðgerðunum og vill Oddur koma þökkum til vinnuveitenda björgunarsveitarfólks á framfæri fyrir sveigjanleika. 

mbl.is