Fengu engin ráð frá leiðsögumanni

Frá aðgerðum björgunarsveita á þriðjudaginn.
Frá aðgerðum björgunarsveita á þriðjudaginn. Ljósmynd/Þór Kjartansson

„Við teljum að fyrirtækið hafi sýnt af sér vanrækslu og að það hefði aldrei átt að fara í þessa ferð,“ segir einn af ferðamönnunum 39 sem lentu í hremmingum í vélsleðaferð við rætur Langjökuls.

Barry Maxey ræddi við mbl.is frá brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í morgun þar sem hann og kona hans Michelle Smith biðu eftir flugi heim til Englands.

Þau voru í sama átta manna hópi og Richard Gonsalves og eiginkonan hans Sarah, einnig frá Bretlandseyjum, ásamt fjórum til viðbótar frá Brasilíu, þar af tveimur börnum.

Sagt frá veðurspánni í rútunni

Spurður hvort ferðamönnunum hafi verið sagt frá slæmri veðurspá segir Maxey að ökumaður rútunnar frá Reykjavík hafi sagt þeim að spáð væri kafaldsbyl á svæðinu.

Bylurinn skall á þegar þau voru komin að rótum jökulins. „Við grófum okkur í fönn til að halda okkur heitum,“ segir hann. Þau fengu engin fyrirmæli um að gera það heldur ákváðu það sjálf.

Spurður hvort leiðsögumaðurinn sem var með þessum átta manna hópi hafi gefið þeim góð ráð eða leiðsögn svarar hann því neitandi og telur að reyndari leiðsögumenn hafi verið með hitt fólkið á sínum snærum.

Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli.
Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Flesta kól

Til að láta tímann líða á meðan þau biðu eftir hjálp segir Maxey að hópurinn hafi talað saman, sagt eitthvað jákvætt og hoppað sér til hita áður en hann gróf sig í fönn.

Hann segir að flesta ferðamennina hafi kalið, þar á meðal hann og konu hans. Hún meiddist einnig á ökkla, eins og fleiri í hópnum. Allir voru í miklu uppnámi.

Ljósmynd/Þór Kjartansson

Á mörkum þess að vera mannlegir

Hann segir hópinn hafa óttast um líf sitt. „Ef björgunarsveitarmennirnir hefðu ekki komið værum við ekki hérna. Þeir voru á mörkum þess að vera mannlegir. Þeir björguðu lífi okkar,“ segir Maxey og vill styrkja þá sjálfur með peningaframlagi. „Þakkir eru ekki nóg.“

Maxey er reiður út í ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland. „Við höfum ekkert farið á sjúkrahús. Okkur var skutlað á hótelið okkar um miðjan dag í gær og engin afskipti voru frekar höfð af okkur. Fyrirtækið hringdi ekki í okkur fyrr en fyrir fimm mínútum, þegar við biðum í brottfararsalnum.“

Þrátt fyrir þrekraunina í fyrstu ferðinni til Íslands ætla Maxey og Smith að heimsækja landið aftur. Þá verður aftur á móti farið að sumri til.

mbl.is