Lögreglan rýnir í hegningarlög vegna vélsleðaferðar

Frá aðgerðum björgunarsveita á Langjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Langjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Lögreglan á Suðurlandi er að skoða ýmis atriði í hegningarlögunum og öðrum lagabálkum varðandi möguleg viðurlög vegna ferðar vélsleðahóps á vegum Mountaineers of Iceland við rætur Langjökuls.

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að viðurlögin velti meðal annars á því hversu miklum meiðslum fólkið varð fyrir. Hvort það hafi skaðast á varanlegan hátt.

„Á hvaða forsendum fer þetta fólk, hvaða upplýsingar hafði það, hvaða upplýsingar höfðu þeir sem voru að fara með þetta fólk upp eftir?“ segir Elís. „Við þurfum að safna því í áþreifanlega kúlu sem stenst eftir á,“ bætir hann við um upplýsingarnar sem lögreglan vinnur úr og á eftir að greina. Skýrslur hafa ekki verið teknar af forsvarmönnum Mountaineers of Iceland en það verður gert á næstu dögum. 

Að lokinni allri úrvinnslu lögreglunnar verður tekin ákvörðun um hvort ákært verður í málinu.

Spurður út í fordæmi fyrir refsingum vegna álíka mála bendir Elís á mál tveggja ástralskra ferðamanna sem fóru í ferð á vegum ferð Mountaineers of Iceland fyrir þremur árum. Málið hafi verið fullrannsakað af lögreglunni en varð svo að einkamáli sem vannst fyrir dómstólum.

Engin fordæmi fyrir sviptingu starfsleyfis

Ferðamálastofa hefur krafið Mountaineers of Iceland um skýringar á því sem gerðist í vélsleðaferðinni á þriðjudaginn. Verið er að fara yfir þau gögn sem fyrirtækið hefur þegar sent stofnuninni en von er á fleiri gögnum.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að fyrir utan mögulega sviptingu starfsleyfis séu engin önnur viðurlög, til að mynda sektir, í tengslum við mál sem þessi.

Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Engin fordæmi um sviptingu starfsleyfis ferðaþjónustufyrirtækja eru heldur fyrir hendi. „Það hefur klárlega ekki verið á gildistíma núverandi laga og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið á grundvelli fyrri laga,“ segir hann en núverandi lög um Ferðamálastofu tóku gildi 2018.

„Það sem gerist er að fyrirtæki hætta starfsemi af einhverjum öðrum orsökum og við það fellur leyfið úr gildi.“

Skarphéðinn segir að býsna mikið þurfi til að ákveðið verði að svipta fyrirtæki starfsleyfi. „Þegar svona mál koma upp er reynt að draga lærdóm af því hvort hægt sé að gera hlutina með betri hætti, eins og alltaf er.“

mbl.is