„Stór, góð högg“ fundust á Selfossi

Guðný Lára Gunnarsdóttir, íbúi á Selfossi.
Guðný Lára Gunnarsdóttir, íbúi á Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta voru stór, góð högg,“ segir Guðný Lára Gunnarsdóttir íbúi á Selfossi í samtali við mbl.is, en hlutir féllu úr hillum heima hjá henni og brotnuðu þegar jarðskjálfti, 3,9 að stærð, reið yfir í Ölfusi á milli Hveragerðis og Selfoss kl. 13:10 í dag.

Guðný Lára segir að þegar skjálftinn gekk yfir hafi glamrað í öllu brothættu í hillum hjá henni og nokkrir stærri hlutir á borð við blómavasa fallið í gólfið og brotnað.

Kraftur var í skjálftanum og lýsa margir Selfyssingar því þannig á samfélagsmiðlum að höggið og dynkurinn sem því fylgdi hafi verið slíkur að það fyrsta sem þeim hafi komið hugar hafi verið að bíl hefði verið ekið á hús þeirra.

Kraftur var í skjálftanum og lýsa margir Selfyssingar því þannig …
Kraftur var í skjálftanum og lýsa margir Selfyssingar því þannig á samfélagsmiðlum að höggið og dynkurinn sem því fylgdi hafi verið slíkur að það fyrsta sem þeim hafi komið hugar hafi verið að bíl hefði verið ekið á hús þeirra. Kort/Veðurstofa Íslands

Dreymdi jarðskjálfta í nótt

„Maðurinn minn stökk út, hélt að einhver hefði keyrt á húsið. Ég reyndar fattaði strax að þetta hefði verið jarðskjálfti og mig dreymdi að það kæmi jarðskjálfti í nótt, þannig að um leið og það byrjaði að hristast þá vissi ég að þetta væri jarðskjálfti,“ segir Guðný Lára.

Blaðamaður spyr hvort hún sé svona berdreymin, en hún segist ekki vera það alla jafna. „Maður man eiginlega aldrei draumana en þetta var mjög skýrt í morgun þegar ég vaknaði, svona óþægileg tilfinning.“

Guðný Lára segist enn vera með smá ónotatilfinningu eftir skjálftann, en að hún líði hjá.

Ekkert eins og 2008

Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri hjá röraverksmiðjunni Seti á Selfossi, segir að skjálftinn hafi fundist vel á skrifstofum fyrirtækisins, sem eru á 2. hæð. „Þetta var ekkert eins og árið 2008 sko,“ segir Bergsteinn, „en þetta var greinilega nálægt. Örfáa kílómetra frá okkur bara.“

„Við erum alveg slakir,“ segir Bergsteinn, sem segir að aðdragandi skjálftans hafi fundist vel á Selfossi, þótt hann hafi ekki staðið yfir lengi.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að tilkynningar hafi borist um að skjálftinn hafi fundist á Selfossi, í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu, en mbl.is hefur einnig heyrt af því að hann hafi fundist greinilega í Þorlákshöfn og á Hellu.

mbl.is