Sakar héraðsdómara um að hafa slegið sig sem barn

Sveinn Óskar Sigurðsson er bæjarfulltrúi Miðflokksins.
Sveinn Óskar Sigurðsson er bæjarfulltrúi Miðflokksins.

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ, greinir frá því á Facebook í dag að Ástráður Haraldsson héraðsdómari hafi slegið hann með flötum lófa í andlitið þegar Ástráður starfaði við kennslu í Grunnskólanum á Hellu fyrir hartnær fjörutíu árum. Sveinn er fæddur 1968 en Ástráður árið 1961.

Ástæðan fyrir því að Sveinn Óskar stígur fram með þessar ásakanir á hendur héraðsdómaranum í dag segir hann að sé sú að nú sækist Ástráður eftir því að verða dómari við Landsrétt.

Bæjarfulltrúinn segist telja „rétt og eðlilegt að almenningur og þeir sem áforma að velja á milli umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt viti af þessu“ máli, sem hefur verið ofarlega í huga Sveins upp á síðkastið þar sem stutt er síðan gömlu skólafélagarnir frá Hellu hittust og rifjuðu upp gamla tíma og meðal annars þetta atvik.

Ástráður Har­alds­son héraðsdómari.
Ástráður Har­alds­son héraðsdómari. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er bara nemandi í bekk og það verða einhver orðaskipti og svo kemur hann bara og slær mig og krakkarnir sem voru með mér í bekk, vinir og félagar, muna þetta alla tíð,“ segir Sveinn.

Finnst að fólk þurfi að vita af þessu

„Ég get ekki hugsað mér að maður sem gerði þetta gagnvart barni í sínu starfi, opinberu starfi, verði landsréttardómari. Mér finnst það bara óeðlilegt,“ segir Sveinn enn fremur í samtali við mbl.is um málið, spurður hvers vegna hann kjósi að tjá sig um þetta mál núna.

„Mjög margir mundu mjög vel eftir þessu og þess vegna finnst mér að þetta þurfi að komast til skila,“ segir Sveinn, sem man þó ekki sjálfur nákvæmlega hvaða skólavetur atvikið átti sér stað.

„Ég er sjálfur í stjórnmálum, ég er ekki að nefna þetta út frá því,“ tekur Sveinn fram og bætir við að honum hafi bara ekki þótt rétt „að sleppa því að láta fólk vita af þessu“.

Spurður um hvort þetta mál hafi eitthvað verið tekið upp innan skólans á sínum tíma segir Sveinn að eitthvað hafi verið rætt um þetta, „en á þessum tíma þótti þetta ekki vera tiltökumál að þetta hefði gerst.“

Ekki náðist í Ástráð Haraldsson við vinnslu fréttarinnar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert