Ákvörðunin ekki hjá Isavia heldur ráðuneytinu

Frá Blönduósi.
Frá Blönduósi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ákvörðun um viðhaldsmál, þjónustustig og uppbyggingu flugvallarins á Blönduósi, sem og öðrum flugvöllum á landinu, er ekki á hendi Isavia heldur er það samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem ákveður slíkt. Þetta kemur fram í svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, vegna orða Guðmundar Hauks Jakobssonar, formanns byggðaráðs Blönduósbæjar, um viðhaldsleysi á vellinum.

Í kjölfar rútuslyssins sem varð nálægt Blönduósi í gær vakti Guðmundur máls á því að flugvöllurinn væri sá eini við þjóðveg eitt á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Sagði hann fólk á svæðinu hafa tuðað yfir þessu máli lengi en lítið gerst. Það væri hans sýn að Isavia væri að reyna að loka vellinum og þá væri viðhaldi ábótavant.

Benti Guðmundur á að í vetur hafi fjöldi fjallvega í kringum svæðið verið lokaðir vegna veðurs og færðar, eins og Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði. „Hvað á að gera við öll slys sem verða á þjóðveg­in­um ef maður kemst hvorki lönd né strönd?“ spurði Guðmundur og vísaði til þess að þjónusta sjúkrastofnana hefði verið færð á Landspítalann og erfitt væri að komast þangað við slíkar aðstæður ef ekki væri flugvöllur.

Guðjón segir að hjá Isavia sé skilningur fyrir þessum sjónarmiðum, en að mikilvægt sé að staðreyndum sé haldið til haga. „Það er ekki Isavia sem tekur þessar ákvarðanir sem þú fjallar um heldur er það áðurnefnt ráðuneyti fyrir hönd íslenska ríkisins,“ segir hann.

Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar.
Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina