Borgarlína í gegnum HR

Gert er ráð fyrir að borgarlínan stoppi austan megin við …
Gert er ráð fyrir að borgarlínan stoppi austan megin við aðalbyggingu HR, milli skólans og húss Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð samþykkti á fimmtudag drög að samningi borgarinnar við Háskólann í Reykjavík um uppsetningu borgarlínustoppistöðvar við skólann. 

Gert er ráð fyrir að borgarlína liggi frá Kópavogi yfir fyrirhugaða Fossvogsbrú, stoppi við Háskólann í Reykjavík, og liggi eftir Nauthólsvegi inn að samgöngumiðstöð sem rís á BSÍ-reitnum. Stoppistöðin við HR verður yfirbyggð og staðsett á lóðinni Menntasveig 8, vestan við aðalbyggingu HR.

Borgarlína mun stoppa inni í byggingu HR.
Borgarlína mun stoppa inni í byggingu HR. Teikning/Teiknistofan Stika

Í samkomulaginu er kveðið á um töluverða aukningu á byggingarmagni á svæðinu, í samræmi við markmið um þéttingu byggðar í námunda við borgarlínustöðvar. Nýbyggingarnar eru hugsaðar undir húsnæði skólans og nýsköpunar- og þekkingarsvæði auk almennrar þjónustu, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort fleiri íbúðir rísa á svæðinu. Það mun ráðast við gerð deiliskipulags, sem fram undan er.

Samkomulagið er það fyrsta sem borgin gerir um ráðstöfun lóðar í annarra eigu undir borgarlínustöð, að því er segir í skriflegu svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra til mbl.is. Borgin hefur hins vegar gert nokkra samninga og viljayfirlýsingar við ofanverðan Laugaveg og Suðurlandsbraut, sem Dagur segir lykilþróunarás borgarinnar frá vestri til austurs, en meðfram því svæði mun borgarlína liggja en í einhverjum tilvikum munu stöðvarnar teygja sig inn á þær lóðir.

Breytingar á ýmsum lóðaleigusamningum nauðsynlegar

Á fundi borgarráðs á fimmtudag var tekið fyrir erindisbréf samningateymis borgarinnar, sem til stendur að skipa vegna annarra samninga sem gera þarf við lóðarhafa og landeigendur vegna borgarlínu. Dagur segir Reykjavíkurborg eiga langmestan hluta þess lands sem fyrirhuguð borgarlína mun liggja um, og því sé í flestum tilvikum um að ræða breytingar á lóðaleigusamningum sem borgin hefur gert við einkaaðila.

Samkomulagið við HR er viðbót við fyrra samkomulag Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík frá árinu 2007, en samkvæmt því er Reykjavíkurborg skuldbundin til að ráðstafa lóðinni að Menntasveig 2 til Háskólans í Reykjavík. 

Sammælast aðilar um það að Reykjavíkurborg fái ráðstöfunarrétt lóðarinnar, en HR verði hafður með í ráðum er kemur að úthlutun. Þá muni 50% af söluverði byggingarréttar lóðarinnar renna til Háskólans í Reykjavík og hlutur hans nýttur til frekari uppbyggingar nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs á svæðinu, að því er fram kemur í samningsdrögunum.

Hér má sjá væntanlega legu borgarlínu.
Hér má sjá væntanlega legu borgarlínu. Teikning/Teiknistofan Stika

Í samræmi við fyrra samkomulag verður lóðum að Menntasveig 4 og 6 úthlutað til skólans. Sömu sögu er að segja af lóðinni að Menntasveig 8, með þeirri undantekningu að Reykjavíkurborg fær þann byggingarrétt „sem þörf er á undir borgarlínustoppistöð“.

Fram kemur í samkomulaginu að aðlögun borgarlínu að gatnakerfi Reykjavíkurborgar gæti haft áhrif á hringtorg og stærðir og legu annarra lóða Háskólans í Reykjavík, en að ekki verði greiddar bætur vegna skerðingar þeirra.

Svona verður umhorfs á nýju borgarlínustoppi. Horft til norðurs.
Svona verður umhorfs á nýju borgarlínustoppi. Horft til norðurs. Skjáskot/Reykjavíkurborg
mbl.is