Þakka íbúum og viðbragðsaðilum

Samkvæmt umfjöllun Húnahornsins ákvað bílstjóri fremri rútunnar að stöðva og …
Samkvæmt umfjöllun Húnahornsins ákvað bílstjóri fremri rútunnar að stöðva og kanna aðstæður þegar ekki lengur sáust ljós í baksýnisspeglinum. mbl.is/Jón Sigurðsson

„Þetta er alveg hreint magnað og viljum við að íbúar Blönduós[s] og þeir viðbragðsað[il]ar sem hafa verið okk[u]r innan handar viti hversu miki[ls] við metum þetta! Takk,“ segir María Kristjánsdóttir hjúkrunarnemi í Facebook-færslu um aðstoð sem hjúkrunar- og læknanemar hafa fengið á Blönduósi í kjölfar rútuslyssins í gær, segir í umfjöllun Húnahornsins.

Nemarnir voru í tveimur rútum á leið til Akureyrar í skíðaferð þegar önnur rútan með um 50 læknanema valt við bæinn Öxl. Þrír voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur og einn til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.

Fram kemur í umfjöllun Húnahornsins að hjúkrunarnemarnir hafi verið í fremri rútunni og bílstjóri þeirra hafi allt í einu orðið var við að ekki sáust ljós í baksýnisspeglinum og því ákveðið að stöðva rútuna. Þá hafi uppgötvast að rúta læknanemanna hafði oltið af veginum og lent á hvolfi. Voru rúður rútunnar brotnar og blóðugt á vettvangi.

María þakkar íbúum og viðbragðsaðilum í færslu sinni og segir meðal annars frá því að einn íbúa hafi boðist til þess að koma með dýnu fyrir bakveika ef einhver skyldi hafa þörf fyrir slíkt auk þess að bjóða fram rúm sonar síns.

Facebook færsla Maríu:

„Við erum í góðu atlæti í grunnskólanum með nóg af dýnum, sængum og koddum! Þau opnuðu kjörbúðina sérstaklega fyrir okkur, löngu eftir að hún lokaði. Við höfum aðgang að sturtum í íþróttahúsinu við hliðin[a] á. Einn íbúi kom með sérstaka dýnu fyrir bakveika (ef ske kynni að einhver væri bakveikur) og bauðst einnig til þess að koma með rúm sonar síns! Þetta er alveg hreint magnað og viljum við að íbúar Blönduós[s] og þeir viðbragðsað[il]ar sem hafa verið okk[u]r innan handar viti hversu miki[ls] við metum þetta! Takk!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert