Lægðir sem snúast um sjálfar sig

Farið getur í allt að 50 metra á sekúndu í …
Farið getur í allt að 50 metra á sekúndu í hviðum og ekkert ferðaveður. Kort/Veðurstofa Íslands

Talsverður hringlandaháttur er á lægðunum sem snúast um sjálfar sig í kringum landið að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hægt er að greina fjórar lægðir á veðurtunglamyndum en háupplausnaspárnar sem koma fjórum sinnum á sólarhring eiga mjög erfitt með að finna út hver eða hverjar þessara lægða ætli að hafa mest áhrif á landi í dag.

„Því er æskilegt að ferðalangar og útivistarfólk fylgist vel með því það getur fylgt allmikil úrkoma þessum lægðum þótt ekki séu þær miklar um sig og um tíma valdið mjög takmörkuðu skyggni og jafnvel skafrenningi. Síðan er veðrið eftir helgi án stórra breytinga, norðaustanhvassviðri eða -stormur og ofankoma, einkum fyrir norðan og austan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáð allt að 50 metrum á sekúndu

Gular viðvaranir eru um allt land fyrir utan Austfirði en margar þeirra taka ekki gildi fyrr en á morgun. Á Vestfjörðum tók gul viðvörun gildi klukkan 6 í morgun og gildir til klukkan 17. „Norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi og mjög lélegu skyggni, einkum norðan til. Samgöngutruflanir eru líklegar.“

Síðan er gul viðvörun á Vestfjörðum frá klukkan 13 á morgun þangað til klukkan 19 á þriðjudag. „NA 20-25 með éljum og skafrenningi og jafnvel snjókomu um tíma norðan til. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“

Gul viðvörun tekur gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra klukkan 10 í dag og gildir til klukkan 18. „Norðan 13-18 m/s og snjókoma eða él, en mun hægari og úrkomuminna í innsveitum Lélegt skyggni og erfið akstursskilyrði.“
Þar er síðan önnur gul viðviðvörun á morgun frá klukkan 17 sem gildir til 19 á þriðjudag. „NA og síðar N 20-25 með éljum og skafrenningi og jafnvel snjókomu um tíma, fyrst á Ströndum. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi klukkan 9 og gildir til miðnættis í kvöld. „Norðvestan 10-18 m/s, hvassast við ströndina. Snjókoma og skafrenningur og mjög lélegt skyggni. Samgöngutruflanir eru líklegar.“ 
Á Suðurlandi er gul viðvörun frá klukkan 17 á morgun til klukkan 10 á þriðjudagsmorgun. „NA 18-25 með stöku éljum og skafrenningi, hvassast á Hellisheiði, undir Ingólfsfjalli og Eyjafjöllum. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Við Faxaflóa verður gul viðvörun virkjuð klukkan 17 á morgun og gildir til 19 á þriðjudag. „NA 18-25 með stöku éljum og skafrenningi, hvassast við Hafnarfjall og Kjalarnes ásamt sunnanverðu Snæfellsnesi. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Við Breiðafjörð gildir gul viðvörun frá klukkan 16 á morgun til klukkan 19 á þriðjudag. „NA 20-25 með éljum og skafrenningi. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Á Suðausturlandi er gul viðvörun frá klukkan 16 á morgun sem gildir til klukkan 2 aðfaranótt þriðjudags. „NA 20-25 með slyddu, einkum austan til. Vindhviður gætu farið yfir 50 m/s. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður
Á miðhálendinu er gul viðvörun frá klukkan 15 á morgun til klukkan 16 á þriðjudag. „Norðaustan 20-28 með snjókomu og skafrenningi. Ekkert ferðaveður.“
Í dag er spáð hvassri norðaustanátt á norðvestur- og vestanverðu landinu undir hádegi og allhvassri vestlægri átt NA- og A-lands, annars yfirleitt hægari vindur. Víða snjókoma eða él, en þurrt að kalla A-til. Lægir víða í nótt. Frost yfirleitt 0 til 8 stig.

Vaxandi NA-átt á morgun, víða 15-25 um kvöldið, hvassast S- og V-til. Þurrt SV-til, slydda eða snjókoma um landið austanvert en annars él. Hlánar við SA- og A-ströndina en annars hiti um og undir frostmarki.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Norðaustan 13-18 og snjókoma NV-til um morguninn, annars mun hægari og þurrt. Frost 0 til 8 stig. Vaxandi norðaustanátt síðdegis, víða stormur og él um kvöldið, en slydda eða snjókoma SA-lands.

Á þriðjudag:
Norðaustan hvassviðri eða stormur og snjókoma um landið N-vert, slydda A-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti nálægt frostmarki, en 1 til 5 stig við S-ströndina.

Á miðvikudag:
Norðaustan- og norðanátt með snjókomu N-lands, en slyddu á A-landi. Hiti 0 til 5 stig S- og A-lands, annars vægt frost.

Á fimmtudag:
Austlæg átt og dálítil él, en snjókoma um landið SV-vert. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:
Norðlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum vestan til, en annars víða þurrt. Frost um mestallt land.

Á laugardag:
Útlit fyrir austlæga átt og fari að snjóa um kvöldið, fyrst S-lands.

mbl.is