Útförin var falleg og í anda Leifs

Önnur dráttarvéla Leifs var notuð til að draga kistu hans …
Önnur dráttarvéla Leifs var notuð til að draga kistu hans upp í Vestmannaeyjakirkjugarð þar sem hann var lagður til grafar. mbl.is/Helgi Tórshamar

Útför Leifs Magnúsar Grétarssonar Thisland, piltsins sem lést af slysförum þegar hann féll í Núpá í Sölvadal, fór fram í Landakirkju í Vestmannaeyjum á föstudaginn var. Athöfnin var vel sótt og hefði vart getað verið meira við hæfi segir sóknarpresturinn í Landakirkju.

Leif féll í Núpá í Eyjafirði 11. desember síðastliðinn er hann var að aðstoða bónda við að losa um stíflu í ánni þegar krapagusa hreif hann með sér í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir landið í desember.

Viðamikil leit lögreglu, björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar að honum stóð yfir í nokkra daga en hann fannst látinn nokkrum dögum síðar. Leif var 16 ára gamall og til heimilis í Vestmannaeyjum en fæddur í Noregi árið 2003.

Dráttarvél Leifs dró hann síðasta spölinn

Leif var mikill áhugamaður um búskap og var ákveðinn í að verða bóndi. Þegar bóndi undir Eyjafjöllum féll frá síðasta sumar kláraði Leif heyskapinn ásamt föður sínum. Í kjölfarið festi Leif kaup á tveimur dráttarvélum og var önnur þeirra notuð til að draga kistu Leifs upp í Vestmannaeyjakirkjugarð.

Séra Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur í Landakirkju, sem stjórnaði athöfninni segir að athöfnin hafi verið í anda Leifs og hefði vart nokkuð getað verið meira við hæfi en að láta dráttarvél Leifs draga hann síðasta spölinn.

„Athöfnin var falleg og fór vel fram. Hún var eins ljúf og við gátum haft hana miðað við aðstæður. Kirkjan var full sem og safnaðarheimilið og það mættu líklega um 400 manns,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Frétt Verdens Gang um Leif, sögu hans og útförina.

mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is/Helgi Tórshamar
mbl.is