Vatnaskil í endurvinnslumálum

„Við teljum okkur vera að ná ákveðnum tímamótum fyrir íslenska þjóð í endurvinnslumálum,“ segir Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North, sem nýlega tókst að gangsetja fyrstu plastendurvinnslu landsins í Hveragerði. Jarðvarmi er nýttur í ferlinu sem gerir það umhverfisvænna en hjá sambærilegum verksmiðjum erlendis.

Sem stendur tekur verksmiðjan við pökkunarplasti fyrir heyrúllur, pokum, plastfilmu og þolplasti sem að sögn Sigurðar er afar krefjandi að endurvinna. Ferlið er nokkuð umfangsmikið þar sem mikilvægt er að þrífa plastið vel áður en hægt er að steypa það að nýju í litlar plastpallettur sem svo eru nýttar í plastframleiðslu.

Í myndskeiðinu er kíkt á endurvinnsluna sem hefur verið í þróun hjá fyrirtækinu frá árinu 2015.

Nú er megnið af íslensku plasti sent úr landi til endurvinnslu með tilheyrandi kolefnisbrennslu. Reiknað hefur verið út að fyrir hvert tonn af plasti sem er endurunnið sparist 1,8 tonn af olíu. Á næstu vikum hefjast sólarhringsvaktir á framleiðslulínu fyrirtækisins og þá ættu afköstin að vera um 12 tonn á dag. Alls falla til um 2.000 tonn af heyrúlluplasti á ári.

Þá er byrjað að undirbúa framleiðslulínu fyrir harðplast og umbúðaplast og Sigurður á von á mikilli gerjun í þessum málum á næstu misserum. Plastpallettur fyrirtækisins eru til að mynda seldar úr landi en hann vonast til að í framtíðinni verði þær nýttar í framleiðslu hérlendis.  

mbl.is