Appelsínugul viðvörun síðar í dag

Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út um mestallt landið.
Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út um mestallt landið. Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun, sem felur í sér norðaustanstorm eða -rok, hefur verið gefin út um stóran hluta landsins vegna vonskuveðurs síðar í dag og fram á nótt.

Búist er stormi eða roki víða um land og hríð eða stórhríð á Vestfjörðum og Norðurlandi í dag og á morgun, að því er segir í athugasemd veðurfræðings.

„Gengur í norðaustan 20-28 m/s síðdegis, en hægari norðaustantil á landinu. Skafrenningur um allt land og víða él en úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi. Heldur hægari eftir hádegi á morgun. Þurrt um landið suðvestanvert, rigning á Austfjörðum, en slydda eða snjókoma norðantil. Vægt frost, en hiti um og yfir frostmarki á morgun.“

Nánar um veðurspána:

Frá klukkan 15 í dag til klukkan 1 í nótt er á Suðurlandi spáð norðaustan 20-28 metrum á sekúndu, hvassast undir Eyjafjöllum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll.

Skafhríð verður með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjóni. Einnig er nærri stórstreymt og má búast við óvenjuhárri sjávarstöðu á flóði.

Á Faxaflóa frá klukkan 16 í dag til 2 í nótt er spáð norðaustan 20-28, hvassast á Snæfellsnesi með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll, t.d. á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjóni.

Á Breiðafirði er spáð norðaustan 20-28, hvassast austan til á spásvæðinu með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Él og skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjóni.

Frá hádegi á Vestfjörðum er spáð norðaustan 20-28, hvassast á heiðum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjóni.

Á Suðausturlandi er frá klukkan 16 í dag spáð norðaustan 20-28, hvassast í Öræfum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjóni.

Á miðhálendinu er spáð norðaustan 23-33 m/s með snjókomu, skafrenningi og afleitu skyggni. Ekkert ferðaveður.

Gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Spáð er norðaustan og síðar norðan 15-23 m/s, með skafrenningi og lélegu skyggni í fyrstu. Færð gæti spillst.

Einnig er gul viðvörun á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum.

Veðurvefur mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert