Sakar Pál Baldvin um ritstuld

Síldarárin 1867-1969. Bókin sem fjallað er um.
Síldarárin 1867-1969. Bókin sem fjallað er um.

„Þetta er svolítið eins og að vaða bara inn á þennan vef á skítugum skónum og taka það sem maður vill,“ segir Jón Ólafur Björgvinsson greinarhöfundur á Sigló.is en hann ásakar bókmenntafræðinginn og blaðamanninn Pál Baldvin Baldvinsson um ritstuld í bókinni Síldarárin 1867-1969.

Skrifaði hann ítarlegan pistil þess efnis á Trölla.is í fyrradag og færir rök fyrir því að síldarsögur og önnur skrif eftir hann á Sigló.is hafi verið notuð í leyfisleysi í bókinni.

„Það hefði verið hægt að komast hjá þessu ef menn hefðu lagt sig fram í heimildavinnu og hreinlega hringt í mig og spurt mig. Ég hefði örugglega sagt já,“ segir Jón Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

Segist hann vera sérstaklega sorgmæddur yfir grein sem birtist í bók Páls sem Jón segir að byggist á eigin skrifum sem hann kveðst hafa eytt 100 klukkutímum í sjálfboðavinnu í að vinna.

„Ég hefði aldrei farið fram á það við neinn að fá borgað fyrir þetta. Það skiptir máli að menn séu ekki bara að vanda sig út af höfundaréttarlögum heldur líka af virðingu við þá sem eru á bak við þetta,“ segir Jón Ólafur.

Páll Baldvin, sem hefur svarað Jóni í athugasemd undir pistlinum á Trölla.is, segir það af og frá að ritstuldur hafi verið með vilja gerður.

„Þetta eru mistök sem áttu sér stað. Þau eru viðurkennd. Það er búið að biðja Jón afsökunar á því að það skyldi vera gengið á hans sóma,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

„Það er náttúrulega leiðinlegast fyrir okkur sem unnum að þessari bók að þetta skuli hafa farið í gegnum síu sem er í fyrsta lagi ég, í öðru lagi ritstjóri og í þriðja lagi prófarkalesarar,“ segir hann.

„Við vonum að þetta sé eina tilvikið þar sem það er ekki sómasamlegur frágangur á heimildavísun í þessi verk. Reyndar eru þarna hundruð heimilda og tilvísana. En svona lagað getur gerst. En þetta er samt sem áður óafsakanlegt og okkur þykir þetta ákaflega miður,“ segir Páll. rosa@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert