Seðlabankinn braut jafnréttislög við ráðningu

Seðlabanki Íslands braut gegn jafnréttislögum við ráðningu upplýsingafulltrúa í sumar.
Seðlabanki Íslands braut gegn jafnréttislögum við ráðningu upplýsingafulltrúa í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Seðlabanki Íslands braut jafnréttislög þegar Stefán Rafn Sigurbjörnsson var ráðinn upplýsingafulltrúi hjá bankanum í sumar. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 17. desember síðastliðinn, en úrskurðurinn er nú aðgengilegur á vef kærunefndarinnar.

Fyrst var fjallað um málið á vef RÚV, en þar kemur einnig fram að konan sem kærði ráðninguna sé Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Símans og núverandi dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og blaðamaður á Læknablaðinu. Alls sóttu 51 um starfið hjá Seðlabankanum, en um nýja stöðu var að ræða.

Niðurstaða kærunefndarinnar er sú að Seðlabankinn hafi brotið gegn jafnréttislögum með því að hafa ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Þá telur nefndin sömuleiðis að Gunnhildur hafi „staðið umræddum karli framar“ varðandi bæði menntun og hins vegar reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, fjölmiðlakona og fyrrverandi upplýsingafulltrúi Símans, kærði ráðninguna …
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, fjölmiðlakona og fyrrverandi upplýsingafulltrúi Símans, kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála. mbl.is/Golli

Kærunefndin segir einnig ósannað af hálfu Seðlabankans að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar varðandi tungumálakunnáttu og þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, sem hvort tveggja séu þættir sem unnt sé að meta með fremur hlutlægum hætti.

Seðlabankinn setti það sjónarmið fyrir nefndina að Stefán Rafn hefði uppfyllt allar hæfniskröfur nægjanlega og auk þess staðið sig vel í viðtölum, þar sem hann og tvö önnur sem metin voru hæfust sýndu öll fram á skýra sýn á upplýsingamiðlum bankans og hvernig ætti að móta nýmiðlastefnu hans til framtíðar. Stefáni var því boðið, ásamt tveimur til viðbótar, að vinna verkefni og var það mat sjö einstaklinga innan Seðlabankans að hans verkefni hefði borið af og honum boðið starfið í framhaldinu. Gunnhildur var ekki í hópi þeirra þriggja sem fengu að spreyta sig við það verkefni.

Tvívegis áður brotið gegn jafnréttislögum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Seðlabankinn brýtur jafnréttislög, að mati kærunefndarinnar, en árið 2012 var karl ráðinn sem sérfræðingur í lánamálum ríkisins, en ekki kona, sem var að mati nefndarinnar að minnsta kosti jafn hæf til að gegna starfinu.

Árið 2014 braut bankinn svo einnig jafnréttislög þegar karl og kona með sömu menntun voru ráðin inn í sambærilegar stöður í bankanum, en konan var á lægri launum frá upphafi.

mbl.is