Segir stöðuna með öllu ólíðandi

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Samfylkingarinnar segir að staðan á Landspítalanum sé með öllu ólíðandi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Spítalinn og heilbrigðiskerfið allt búi við langvarandi álag, undirmönnun og fjársvelti og þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin bregðist strax við þessu ófremdarástandi.

Það sé skammarlegt að starfsfólk lýsi neyðarástandi á sama tíma og ríkisstjórnin krefjist milljarðaniðurskurðar í rekstri.

Mikið álag á bráðamót­töku Land­spít­al­ans í Foss­vogi hef­ur verið í umræðunni síðustu daga en Félag al­mennra lækna og Fé­lag sjúkra­hús­lækna hafa meðal annars lýst yfir þungum áhyggjum af viðvarandi óviðunandi og stöðugt versnandi ástandi á Landspítala.

„Í heilbrigðismálum eru Íslendingar eftirbátar hinna norrænu ríkjanna, hvort sem litið er til fjármögnunar eða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk,“ segir í ályktun þingflokks Samfylkingarinnar. Þar er enn fremur bent á að stjórnarflokkarnir hafi ítrekað fellt tillögur Samfylkingarinnar um aukin fjárframlög til heilbrigðismála.

„Kjarasamningar fjölda heilbrigðisstétta hafa verið lausir í meira en níu mánuði. Í þeim hópi eru stórar kvennastéttir, svo sem hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar, ljósmæður og annað starfsfólk sem heldur daglegum rekstri heilbrigðiskerfisins gangandi. Þessi seinagangur er óásættanlegur,“ segir í ályktuninni.

mbl.is