Ákvæði sem á að sporna við misnotkun á vinnuafli

Stjórnvöld hafa látið vinna leiðbeiningar þar sem fjallað er um …
Stjórnvöld hafa látið vinna leiðbeiningar þar sem fjallað er um keðjuábyrgð og hvernig verktakar og opinberir aðilar geti uppfyllt lagalegar skyldur sem stuðla að ábyrgum vinnumarkaði á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvæði um keðjuábyrgð sem sporna á við mögulegri misnotkun á vinnuafli hér á landi hefur verið innleitt í lög um opinber innkaup. Ákvæðið er þáttur í aðgerðum stjórnvalda til að vinna gegn félagslegum undirboðum og brotum á vinnumarkaði, að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins

Jafnframt hafa verið unnar leiðbeiningar, þar sem fjallað er um keðjuábyrgð og hvernig verktakar og opinberir aðilar geti uppfyllt lagalegar skyldur sem stuðla að ábyrgum vinnumarkaði á Íslandi.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir ákvæðið um keðjuábyrgð vera mikilvægan hvata fyrir opinbera aðila og aðalverktaka til að velja sér ábyrga samningsaðila. „Nú þegar hafa nokkrir opinberir aðilar á vegum ríkis og sveitarfélaga tekið inn í útboðsgögn sín ákvæði um keðjuábyrgð verktaka sem sýnir mikilvægi og nauðsyn hennar,“ er haft eftir Bjarna í tilkynningu.  

Ákvæðið á einnig að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lýst er yfir vilja til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. 

Keðjuábyrgðin snýr að verklegum framkvæmdum og felur í sér að aðalverktaka er gert skylt að tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleigna, sem koma að framkvæmd samnings, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.

Opinberum aðila sem kaupanda ber skylda til að gera grein fyrir ábyrgð aðalverktaka í útboðsgögnum. Honum er einnig heimilt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna, á kostnað aðalverktaka, standi hann ekki í skilum með greiðslur.  

Leiðbeiningar um keðjuábyrgð

mbl.is