Deilan vegna EK1923 harðnar enn

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Skúli ætlar núna að kæra Svein Andra fyrir fjárdrátt. Samsett mynd

Á undanförnu þremur og hálfu ári hafa skipti á þrotabúi heildsölunnar Eggerts Kristjánssonar, sem í dag heitir EK1923, reglulega komist í fjölmiðla vegna fjölda málaferla sem tengjast skiptunum. Annars vegar er um að ræða riftunarmál sem skiptastjórinn Sveinn Andri Sveinsson hefur rekið fyrir hönd þrotabúsins, en hins vegar ýmsar aðfinnslur og kvartanir sem hluti kröfuhafa og fyrrverandi eigandi félagsins, Skúli Gunnar Sigfússon sem jafnan er kenndur við Subway, hafa haft uppi við meðferð málsins. Skúli hyggst nú kæra Svein Andra þar sem hann telur líkur á refsiverðri háttsemi við skipti búsins.

Á morgun er ráðgerður fundur lögmanna og dómara í málinu vegna deilna um skiptaþóknun Sveins Andra í kjölfar ákvörðunar dómara á síðasta ári um að Sveinn ætti að endurgreiða búinu alla þóknun sem hann hefði greitt sér. Var sú upphæð talin geta verið um 100 milljónir. Hluti kröfuhafa vill hins vegar nánari upplýsingar um endurgreiðsluna og að hún sé enn á reikningum þrotabúsins.

Upphaf þessarar deilu má rekja rúmlega ár aftur í tímann, en í lok árs 2018 gerði þessi hópur kröfuhafa athugasemd við skiptaþóknanir auk þess að fara fram á að Sveini Andra yrði vikið sem skiptastjóra. Taldi hópurinn að ekki hefði verið upplýst um tímagjald skiptastjóra fyrir fram og áætlaðan kostnað við skiptin. Dómari tók undir þessi rök, en taldi ekki þörf á að víkja Sveini Andra sem skiptastjóra, meðal annars vegna þess að lítið væri eftir af skiptunum. Þess ber að geta að þessi hópur kröfuhafa er eigandi að um 10% af kröfum á þrotabúið.

Í nóvember átti skiptastjóri að endurgreiða þrotabúinu fjármunina og í fyrirtöku 22. nóvember framvísaði Sveinn Andri staðfestingu endurskoðanda á að upphæðin hefði verið greidd. Heiðar Ásberg  Atlason, lögmaður kröfuhafanna, segir hins vegar í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir millifærslukvittun sem og yfirliti á fjárvörslureikningi þrotabúsins til að sannreyna að fjármunirnir hafi verið endurgreiddir og að þeir séu enn á reikningnum. Slíka staðfestingu hafi þeir hins vegar ekki fengið. Skúli segir að þeir hafi rökstuddar grunsemdir um að upphæðin hafi verið greidd til baka af reikningnum og ef svo sé brjóti það gegn ákvörðun dómarans.

Heiðar segir að ef peningurinn sé enn á fjárvörslureikningnum hefði verið lítið mál fyrir Svein Andra að afhenda þessi gögn strax. „Hann gerir sjálfan sig bara grunsamlegan með þessu háttalagi,“ segir hann. Skúli tekur þyngra í árina og segist ætla að kæra Svein Andra fyrir fjárdrátt vegna þessa til að fá að fullu úr því skorið að fjármunirnir séu enn á reikningi þrotabúsins. Ef þeir séu það ekki sé um refsiverða háttsemi að ræða.

Á fundinum á morgun verður farið yfir stöðu málsins og þær kröfur sem liggja fyrir frá kröfuhöfunum varðandi frekari upplýsingar um fjárhagsstöðu búsins. Mun dómarinn svo í framhaldinu líklega taka afstöðu um hvort skiptastjóra beri að birta frekari gögn til að staðfesta endurgreiðsluna eða hvort fyrri staðfesting sé nægjanleg.

Þetta er þó ekki eina hliðarskrefið í öllum þeim dómsmálum sem hafa komið upp í kringum skiptin. Í lok síðasta árs var einnig greint frá því að Sveinn Andri hefði lagt fram kvörtun vegna starfa dómara málsins, Helga Sigurðssonar héraðsdómara, til nefndar um dómarastörf. Taldi hann per­sónu­lega andúð dóm­ar­ans hafa spilað inn í ákvörðunina. Ekki er komin niðurstaða í það mál.

Árið 2018 tapaði Skúli eða félög í hans eigu þremur málum sem tengdust gjaldþroti EK1923. Lokaniðurstaða var í tveimur málum, annars vegar upp á 15 milljóna riftun og hins vegar 2,3 milljónir í bætur. Í þriðja málinu komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að félagið Stjarnan, í eigu Skúla, skyldi greiða þrotabúi EK1923 223 milljónir. Er það mál nú fyrir Landsrétti. Þá hefur Skúli verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir að rýra efnahag EK1923 fyrir gjaldþrot þess, en Sveinn Andri hafði sem skiptastjóri látið yfirvöld vita af meintum brotum eftir að hann tók við þrotabúinu.

mbl.is