Í varðhaldi þar til réttarhöld fara fram

Lögregla má ekki tjá sig um einstök atriði rannsóknarinnar samkvæmt …
Lögregla má ekki tjá sig um einstök atriði rannsóknarinnar samkvæmt úrskurði dómara. AFP

Íslendingur sem grunaður er um að hafa orðið sambýlismanni móður sinnar að bana á Torrevieja á Spáni aðfaranótt sunnudags hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Mun það vara þangað til réttað verður í málinu.

Þetta segir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante, í samtali við mbl.is. Maðurinn var handtekinn á sunnudag og leiddur fyrir dómara í dag. Ríkisútvarpið greinir frá því að maðurinn hafi þegar verið ákærður fyrir manndráp, en það hefur ekki fengist staðfest frá lögreglu.

Um er að ræða fertugan Íslending, en maðurinn sem hann er grunaður um að hafa banað er 66 ára gamall og einnig Íslendingur.

Lögregla má ekki tjá sig um einstök atriði rannsóknarinnar samkvæmt úrskurði dómara, en samkvæmt fréttum spænska fjölmiðilsins Informacion mun maðurinn hafa komist inn á heimili móður sinnar og sambýlismannsins með því að klifra yfir vegg. 

Svo virðist vera sem til átaka hafi komið á milli mannanna tveggja, en rúða var brotin á vettvangi og glerbrot á víð og dreif, sem maðurinn hafði meðal annars skorist á. Í fyrstu var talið að yngri maðurinn hefði hrint þeim eldri á rúðu með þeim afleiðingum að hún brotnaði og að hann hefði hlotið fjölda skurða og blætt út, en samkvæmt Informacion mun það hafa verið vitnisburður móðurinnar um atvik næturinnar.

Við nánari rannsókn lögreglu hafi hins vegar komið í ljós stungusár á líkama mannsins sem ekki hafi mátt rekja til glerbrotanna.

Í samtali við Fréttablaðið segir móðirin Informacion fara með rangt mál og lýsir atburðum þannig að sonur hennar hafi brotist inn á heimilið með því að kasta gaskút í gegnum rúðuna. Hann hafi svo lagt til sambýlismanns hennar með eggvopni og banað honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert