Leggjast gegn styttri starfstíma leikskóla

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokk segja að fyrirætlanir meirihlutans um styttri starfstíma leikskóla …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokk segja að fyrirætlanir meirihlutans um styttri starfstíma leikskóla feli í sér þjónustuskerðingu fyrir margar fjölskyldur í borginni. Myndin hér er af leikskólanum Hólaborg í Breiðholti og er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar greiddu atkvæði gegn styttingu starfstíma leikskóla borgarinnar á fundi ráðsins í dag og segja þeir að um þjónustuskerðingu fyrir margar fjölskyldur í borginni sé að ræða.

Tillagan var samþykkt af meirihluta ráðsins og gengur nú áfram til borgarráðs. Verði tillagan samþykkt þar loka allir leikskólar borgarinnar dyrum sínum kl. 16:30 frá og með 1. apríl, en í dag eru þeir opnir til kl. 17.

Þessu eru sjálfstæðismenn í skóla- og frístundaráði ósammála, en þar sitja Marta Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Egill Þór Jónsson fyrir hönd flokksins.

Leggja til að leikskólar fái að ráða starfstíma sínum

„Breyttur samningur um leikskólaþjónustu mun hafa í för með sér skerta þjónustu fyrir fjölmargar fjölskyldur í borginni. Ljóst er að flestir foreldrar ráða ekki vinnutíma sínum eða hafa sveigjanlegan vinnutíma. Þá hefur auk þess ferðatími fólks til og frá vinnu aukist umtalsvert undanfarin ár þannig að erfitt getur reynst fyrir marga foreldra að ná að sækja börn sín fyrir kl. 16:30,“ segir í bókun sjálfstæðismanna, sem lögðu í staðinn til að þörfum þessara foreldra verði mætt með sveigjanlegum opnunartíma leikskólanna og að leikskólarnir sjálfir fái að skipuleggja lengd leikskóladagsins miðað við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra.

„Slík ráðstöfun myndi auka sjálfstæði leikskólanna enn frekar og opna á sveigjanlegri vinnudag starfsfólks leikskólanna,“ segir í bókun sjálfstæðismanna. Tillögu fulltrúanna um þetta var frestað til næsta fundar skóla- og frístundaráðs.

mbl.is