Lögregla má ekki tjá sig um rannsóknina

Torrevieja á Spáni.
Torrevieja á Spáni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Dómari í máli íslensks manns sem er í haldi lögreglunnar á Spáni vegna gruns um að hafa orðið sambýlismanni móður sinnar að bana hefur meinað lögreglu að gefa upplýsingar um rannsókn málsins.

Þetta segir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante, í samtali við mbl.is. Hún gat þó staðfest að maðurinn, sem er fertugur, verður leiddur fyrir dómara í dag.

Samkvæmt frétt spænska miðilsins Informacion mun maðurinn hafa komist inn á heimili móður sinnar og sambýlismanns hennar með því að klifra yfir vegg. Í fréttinni segir jafnframt að samkvæmt lögreglu hafi vitnisburður móðurinnar verið á þá leið að til stympinga hafi komið á milli mannanna sem hafi endað með því að sambýlismanni hennar var hrint á rúðu með þeim afleiðingum að hún brotnaði.

Maðurinn mun hafa skorist töluvert við fallið, en samkvæmt frétt Informacion fundust einnig stungusár á líkama mannsins sem ekki megi rekja til glersins úr glugganum sem brotnaði.

Í samtali við Fréttablaðið segir móðirin Informacion fara með rangt mál og að atvik hafi verið með þeim hætti að sonur hennar hafi kastað gaskút í gegnum rúðuna til þess að komast inn á heimilið. Hann hafi svo lagt til sambýlismanns hennar með hnífi.

Ekki náðist í móðurina við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is