Reykjavíkurborg styttir starfstíma leikskóla

Leikskólabörn í vettvangsferð í miðborg Reykjavíkur. Borgin ætlar að gera …
Leikskólabörn í vettvangsferð í miðborg Reykjavíkur. Borgin ætlar að gera líkt og sveitarfélög á borð við Kópavog, Akureyri og Reykjanesbæ og stytta opnunartíma leikskóla. mbl.is/Hari

Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að breyta starfstíma leikskóla borgarinnar frá og með 1. apríl, þannig að almennur starfstími verði frá kl. 07:30 til 16:30. Þar með styttist starfstími leikskóla í borginni um hálftíma, en undanfarin ár hefur leikskólum borgarinnar verið lokað kl. 17:00.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrúi Samfylkingar, segir í samtali við mbl.is að þessar aðgerðir hafi verið í umræðunni frá því í haust, en þær voru á meðal tillagna stýrihóps sem hefur skilað af sér áfangaskýrslu um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavíkurborg.

Spyrnt við fótum gegn æ lengri leikskóladegi

„Við settum niður starfshóp með fulltrúum leikskólastjóra í október til að skoða almennt þetta umhverfi, skipulag leikskólastarfsins og hvaða aðgerðir koma til greina til þess að sérstaklega draga úr álagi á börnin og starfsfólkið. Það hefur verið áberandi að vistunartíminn hefur verið að lengjast og lengjast nokkuð hressilega á síðustu misserum og árum. Fyrir örfáum árum var algengt að börnin væru 4-6 tíma á leikskóla en í dag eru margir að nýta sér tímann í botn, þessa níu tíma,“ segir Skúli.

Hann bætir við að í nokkrum nágrannasveitarfélögum borgarinnar og á Akureyri hafi verið gripið til sömu aðgerða til þess að „spyrna við fótum“ gegn þessari þróun, að vistunartími ungra leikskólabarna lengist og lengist.

„Sterkar líkur“ á að áhrifin verði lítil

Skúli segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig foreldrar bregðist við þessum tíðindum, en hann bendir jafnframt á að af þeim hópi foreldra sem kaupir vistun til kl. 16:45 eða 17 sé meira en helmingurinn sem sæki alltaf börn sín fyrir 16:30.

Í skýrslu stýrihópsins segir að 18% barna á leikskólum borgarinnar séu með dvalarsamning sem lýkur eftir kl. 16:30 á daginn, en að aðeins 8% eru að nýta sér dvöl eftir kl. 16.30, tæp 5% frá 16.30-16.45 og 3% eftir kl. 16.45. Þannig voru um 92% barna hafi verið sótt fyrir kl. 16.30 í leikskólann, en þessar tölur miðast við úttekt sem gerð var á einnar viku tímabili um miðjan októbermánuð.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segist reikna með …
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segist reikna með að nú fari af stað samtal á milli stjórnenda og foreldra í hverjum og einum leikskóla í borginni. mbl.is/​Hari

„Þetta segir okkur að það séu sterkar líkur á því að þetta muni ekki hafa mikil áhrif,“ segir Skúli og bætir við að gefinn sé rúmur aðlögunartími að breytingunum. „Þetta tekur ekkert gildi fyrr en 1. apríl og við reiknum með því að nú fari í gang samtal inni á hverjum leikskóla fyrir sig á milli stjórnenda og foreldra.“

Skúli segir að enn fremur geti foreldrar, sem séu í erfiðri stöðu og þurfi nauðsynlega á þessum hálftíma að halda, sótt um framlengdan aðlögunartíma til 1. ágúst.

Hann segir einnig að leikskólastjórnendur hafi sagt að þeir telji að það sé ekki viðkvæmasti foreldrahópurinn, t.d. einstæðir foreldrar, sem hafi verið að kaupa þennan síðasta hálftíma á milli 16:30 og 17:00.

„Margir virðast hafa keypt þennan tíma meira til þess að eiga hann uppi í erminni, ef þau þyrftu að nota hann, en eru ekki að nýta hann í reynd,“ segir Skúli.

Bjóða laus rými til umsóknar

Í fréttatilkynningu frá borginni um þessar breytingar segir að stýrihópurinn hafi jafnframt lagt til í skýrslu sinni um umbætur og skipulag leikskólastarfs í borginni að laus rými á leikskólum borgarinnar verði boðin foreldrum til umsóknar, en þá er verið að ræða um rými á leikskólum þar sem búið er að tæma alla biðlista.

„Undanfarna mánuði hafa biðlistar tæmst í nokkrum fjölda leikskóla samhliða inntöku yngri barna og er nú fyrirhugað að fara í kynningarátak til foreldra um laus pláss og opna fyrir innritun yngri barna en nú er þar sem aðstæður leyfa. Á síðasta ári var opnað fyrir innritun 15-18 mánaða barna og tókst að bjóða meirihluta barna á þeim aldri leikskólapláss,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert