Stór snjóflóð féllu á Suðureyri og Flateyri

Frá Flateyri í kvöld, en þar féll flóð á smábátahöfn …
Frá Flateyri í kvöld, en þar féll flóð á smábátahöfn bæjarins. Ljósmynd/Aðsend

Stór snjóflóð féllu á Suðureyri og Flateyri á tólfta tímanum í kvöld með afar skömmu millibili. Á Suðureyri varð töluvert eignatjón, en engin slys á fólki, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði. Þar féll flóð úr hlíðinni til móts við byggðina og olli því að flóðbylgja myndaðist í Súgandafirði og gekk inn á Suðureyri.

Á Flateyri runnu tvö flóð, hvort sínu megin við snjóflóðavarnagarðana ofan við byggðina. Annað þeirra endaði á smábátahöfninni í bænum og virðist hafa valdið miklu þar tjóni.

Annað snjóflóðið á Flateyri lenti á einu húsi, þaðan var unglingsstúlku bjargað og er hún heil á húfi, ekki alvarlega slösuð, samkvæmt tilkynningu frá samhæfingarstöð almannavarna.

Fólk á Flateyri beðið um að halda kyrru fyrir heima að svo stöddu og íbúar á Suðureyri eru beðnir um að halda sig frá höfninni.

Verið er að rýma einhver hús og bæði þyrla Landhelgisgæslunnar og varðskipið Þór eru á leið til Flateyrar, en varðskipið var statt á Ísafirði. 35 björgunarsveitarmenn eru á leiðinni á Flateyri með varðskipinu.

Rauði kross Íslands er í viðbragðsstöðu og minnir á að hjálparsíminn 1717 er opinn.

Snjóflóð féll á Flateyri og Súgandafirði á tólfta tímanum.
Snjóflóð féll á Flateyri og Súgandafirði á tólfta tímanum. Kort/Map.is

Eitthvað virðist hafa „smitast yfir garðinn“ á Flateyri

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði við mbl.is skömmu eftir miðnætti að flóðin hefðu öll fallið á svipuðum tíma, mögulega með innan við tveggja mínútna millibili.

Hann sagði að svo virðist sem flóðin tvö á Flateyri hafi „eitthvað smitast yfir garðinn“ og á þar við ofanflóðavarnirnar, sem virðast hafa forðað byggðinni á Flateyri frá hörmungum í kvöld.

Allir viðbragðsaðilar kallaðir til

Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð rétt fyrir miðnætti vegna snjóflóðanna þriggja. Búið er að boða út alla viðbragðsaðila á svæðinu.

Samkvæmt Stundinni, sem greindi fyrst frá flóðunum á Flateyri, er talið að margir bátar hafi sokkið er flóð skall á höfninni. Þar er því lýst að drunur hafi heyrst um allt þorpið þegar flóðin féllu og talið sé hugsanlegt að snjóflóðavarnir hafi stýrt flóðinu frá byggðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert