„Svona deyrðu í snjó“

Björgunarsveitarfólk hlúir að 14 ára unglingi eftir að honum var …
Björgunarsveitarfólk hlúir að 14 ára unglingi eftir að honum var bjargað. Ljósmynd/Katia Kuwabara

„Svona deyrðu í snjó,“ segir Katia Kuwabara, einn 39 ferðalanganna sem var í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland í grennd við Langjökul á þriðjudaginn fyrir viku, í samtali við Iceland Monitor. Ferðin endaði á því að hópur björgunarsveitarmanna þurfti að bjarga fólkinu í vonskuveðri.

Kuwabara, sem er 49 ára gamall brasilískur ljósmyndari var á ferð ásamt vinkonu sinni, Virginiu Galvani, og tveimur sonum hennar.

Ferðin til Íslands góð og slæm

Kuwabara og samferðafólk spurði hvort það væri öruggt að ferðast með börn í vélsleðaferðir en strákarnir eru 14 og níu ára gamlir. Svarið var að það væri öruggt enda hefði verið farið í mörg ár í slíkar ferðir.

„Þetta var fyrsta ferð mín til Íslands,“ segir Kuwabara. Hún segir ferðina hafa verið góða og slæma, landslagið ótrúlegt en að sama skapi sé óskiljanlegt hvernig svona óábyrgt fyrirtæki geti skipulagt vélsleðaferðir án öryggisbúnaðar eða reynslu í tilvikum eins og þessu.

Frá því klukkan tvö um daginn og fram til hálfníu um kvöldið var hún í fimm manna hópi í hríðarbyl. Hún segir að leiðsögumaðurinn hafi ekki sagt þeim hvað ætti að gera í þessum aðstæðum. Hann hafi farið úr ullarpeysu og notað hana til að reyna að hlýja öðrum syni Galvani á fótunum en sá hafði misst tilfinningu í fótunum. 

Fengu alltaf þau svör að aðstoð bærist eftir 20 mínútur

Þau spurðu ítrekað hvenær hjálp myndi berast og fengu alltaf þau svör að það yrði eftir 20 mínútur.

Allan tímann reyndu Kuwabara og ferðafélagar hennar að gera allt sem þau gátu til að halda á sér hita. „Ég hugsaði með mér; svona deyrðu í snjó,“ segir Kuwabara.

Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli í síðustu viku.
Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli í síðustu viku. Ljósmynd/Landsbjörg

Hún lýsir því hvernig ferðafólkinu hafi loksins verið komið í skjól inni í farartæki. 

Þegar inn í farartækið var komið tók Kuwabara eftir því að síminn hennar virkaði aftur. Þá spurði hún aðra ferðalanga hvort þeir könnuðust við neyðarnúmerið og írsk kona sagðist þekkja 112.

Glíma við vandamál viku eftir ferðina

Björgunarsveitarfólki tókst að bjarga ferðalöngunum og starfsfólki Mountaineers úr vonskuveðrinu. Nú viku síðar segir Kuwabara að börnin séu enn tilfinningalaus í hluta af höndum og fótum. Auk þess hafi hún verið greind með fyrstu einkenni lungnabólgu.

mbl.is