Sýknuð af ákæru um líkamsárás á son sinn

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði konu í dag af ákæru fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum í Reykjavík en henni var gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að syni sínum á heimili þeirra á árinu 2018 þannig að hann hlaut áverka.

Konan var ákærð fyrir að hafa hrint syni sínum niður á rúm, sest ofan á hann og þrýst hnjám á bringu hans, tekið hálstaki og hrækt á andlit hans. Fram kom í ákærunni að drengurinn hafi vegna þessa hlotið áverka á bringu, upphandlegg og aftan á háls.

Fram kemur í dómnum að fyrir lægi að konan hafi verið mjög veik á umræddum tíma og mjög reið og æst af völdum annarlegra áhrifa lyfja án þess að hún gerði sér grein fyrir því. Um einsdæmi hefði verið að ræða og hún ekki áður lagt hendur á börn sín.

Sömuleiðis segir að ekki sé uppi skynsamlegur vafi á því að konan hafi ætlað að meiða son sinn. Þannig hafi hún fært hnén af bringu hans þegar hann hafi kennt til og kvartað undan andþyngslum. Ósannað væri að um ásetning til líkamsárásar hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert