Tók myndir af konu í sturtu

mbl.is

Karlmaður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 7. janúar fyrir kynferðisbrot með því að hafa að kvöldi 12. október 2019 smeygt farsíma sínum undir skilrúm á sturtuklefa kvenna og tekið myndir af konu sem þar var að baða sig. Með háttseminni hafi hann sært blygðunarsemi konunnar.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi játað skýlaust verknaðinn og iðrast gerða sinna. Þá hafi hann ekki áður hlotið dóm. Fyrir vikið hafi 30 daga skilorðsbundið fangelsi talist hæfileg refsing. Var hann enn fremur dæmdur til þess að greiða konunni 200 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta en hún hafði krafist 600 þúsund króna.

Þá var farsími mannsins gerður upptækur og hann dæmdur til þess að greiða samtals tæplega 600 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is