Áttu ekki von á að flóðið færi yfir garðana

Annað flóðið á Flateyri olli flóðbylgju sem sökkti fjölda báta …
Annað flóðið á Flateyri olli flóðbylgju sem sökkti fjölda báta í höfninni. Ljósmynd/Steinunn G. Einarsdóttir

Í hættumati vegna snjóflóða á Flateyri var gert ráð fyrir því að flóð gætu í verstu aðstæðum farið yfir varnargarða að hluta. Ekki var talin hætta á því í gær í mati ofanflóðavaktar Veðurstofunnar, en annað flóðanna sem féll við Flateyri fór á húsið við Ólafstún 14.

Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar, segir í samtali við mbl.is að ekki sé enn hægt að segja til um stærð og umfang flóðanna. Starfsfólk Veðurstofunnar sé á leið með varðskipinu Þór til Flateyrar og líklega verði ekki hægt að meta aðstæður fyrr en um hádegi þegar veðrið skánar. Hann segir þó áfram von á éljaveðri fram eftir degi og því verði erfitt að ná utan um heildarumfangið strax.

Magni segir að það þurfi að skoða mjög vel hvernig farvegur flóðanna hafi verið, sérstaklega þess sem kom úr Innra-Bæjargili, en þaðan kom vestara flóðið. Hluti flóðsins fór yfir varnargarðana fyrir ofan bæinn, þrátt fyrir að Veðurstofan hafi ekki metið hættu á því í gær. Eins og fyrr segir gerði hættumat fyrir snjóflóð á Flateyri ráð fyrir því að við verstu aðstæður gæti hluti flóðs farið yfir garðana.

Fjögur hús höfðu verið rýmd á Flateyri fyrir flóðin í gær, en allt voru það atvinnuhúsnæði. Þá höfðu einnig hús á Ísafirði verið rýmd. Hættusvæði eru metin á skalanum A til C þar sem C-svæði eru hættumestu svæðin. Ekkert íbúðarhúsnæði á Flateyri flokkast undir B- eða C-svæði, en Ólafstún 14 er hluti af A-svæði eins og nokkur önnur íbúðarhús. Fyrir komu varnargarðanna voru öll efri hús byggðarinnar á C-svæði.

Gripið var til frekari rýmingar á sveitabæjum á Vestfjörðum í nótt, en aðspurður segir Magni að áfram verði fylgst með gangi mála og metið hvort grípa þurfi til frekari rýmingar í dag.

Magni segir að hættuástandið lagist ekki fyrr en veðri sloti eftir hádegi í dag, en mest snjóflóðahætta myndast í skjólhlíðum. Undanfarið hefur verið sterk norðaustanátt á svæðinu og féllu bæði flóðin á Flateyri, sem og flóðið í Súgandafirði við Norðureyri, úr suðurhlíðum.

Magni segir að flóð eins og það sem varð í Súgandafirði séu þekkt. Þar féll flóð úr fjallinu til móts við Suðureyri og olli flóðbylgju sem skall á bæinn. Magni segir svipuð flóð þekkt á síðustu tuttugu árum.

mbl.is