„Hún var hætt komin“

Viðbragðsaðilar að störfum hjá varðskipinu Þór er það lá við …
Viðbragðsaðilar að störfum hjá varðskipinu Þór er það lá við bryggju á Flateyri í nótt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Líðan stúlkunnar sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri er góð eftir atvikum. Hún liggur sofandi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða með móður sína sér við hlið.

„Hún var mjög þrekuð og þreytt. Hún náðist út úr herbergi sem fylltist af snjó. Hún átti mjög erfitt með öndun út af snjófargi, sem er frá öllum hliðum,“ segir Örn Erlendur Ingason, læknir á Ísafirði.

Hann bendir á að snjórinn sem fylgir snjóflóðum sé þykkur og fá þeir sem lenda í slíku mikið farg á sig. Hætta er á ofkælingu.

„Hún var hætt komin en þetta tókst vel,“ segir hann og nefnir að stúlkan hafi fengið fyrstu aðhlynningu hjá reyndum hjúkrunarfræðingi sem býr á Flateyri.

30 til 40 mínútur í snjónum

Björgunarsveitarmenn mokuðu stúlkuna út en hún lenti í seinna snjóflóðinu sem féll á bæinn. „Þeir voru komnir í fötin þegar seinna snjóflóðið kemur og þeir koma þarna strax og ná að moka hana út. Ég held samt að hún hafi verið föst í snjó í 30 til 40 mínútur.“

Örn Erlendur segir að enn sem komið er hafi ekkert alvarlegt fundist að stúlkunni líkamlega og bendir allt til þess að hún muni ná sér að fullu. „En þetta er náttúrulega gífurlegt áfall andlega að lenda í svona. Hún nýtur þess líka að vera ung og hraust,“ segir hann en stúlkan verður fimmtán ára í næsta mánuði.

Fylgst verður áfram með líðan stúlkunnar og athugað hvort einhver ný einkenni koma fram.

mbl.is