Kom heljarinnar högg á húsið

Jeppinn sem færðist úr stað eftir flóðbylgjuna.
Jeppinn sem færðist úr stað eftir flóðbylgjuna. Ljósmynd/Aðsend

Flóðbylgja skall á húsi Margrétar Sigurðardóttur og Guðmundar Ágústssonar á Suðureyri í kringum miðnætti eftir að snjóflóð hafði fallið á Norðureyri, hinum megin við Súgandafjörð.

„Þetta flóð fellur fram í sjó og myndar flóðbylgju. Þessi flóðbylgja æðir upp á land í þorpinu og skellur á þessi hús sem eru við götuna,“ segir Guðmundur. Hús þeirra er við Aðalgötu en flóðbylgjan skall einnig á hús við Eyrargötu.

„Það var heljarinnar högg sem kom á húsið.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Hélt að gluggarnir væru að brotna

„Manni brá. Ég hélt að gluggarnir væru að brotna inn,“ bætir Margrét við. „Ég hljóp fram í stofu og þar skall sjórinn á gluggunum. Ég heyrði drunur en maður sá ekkert hvað var að ske þegar þetta skall á húsinu,“ greinir hún frá.

„Krafturinn var svo mikill að bíllinn okkar stóð meðfram húsinu en afturendinn á honum snýr núna upp að húsveggnum. Hann kastaðist til og það nötraði allt.“  

Suðureyri.
Suðureyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vakin og flutt á hótel

Hún segir að þeim hafi strax dottið í hug að flóðbylgja hefði komið vegna snjóflóðs. Þau sáu að sjórinn hafði gengið mikið upp á götuna og töldu augljóst hvað hafði gerst. Þau hringdu strax í neyðarlínuna.

„Við ætluðum að vera í húsinu í nótt en svo vorum við vakin upp og flutt á hótelið,“ segir hún og nefnir að Aðalgatan hafi verið rýmd.

Aðspurð segist Margrét ekki hafa átt von á neinu, þó svo hún hafi vitað af hættu af flóðbylgju á svæðinu. Þegar snjóflóðið féll árið 1995 fór flóðbylgjan inn í fjörðinn, ekki á svæðið þar sem hún býr.

Ekkert skemmdist í húsinu en einhver sjór flæddi inn í anddyrið á neðri hæðinni.

Myndir frá varðskipinu Þór sem voru teknar eftir að snjóflóðin …
Myndir frá varðskipinu Þór sem voru teknar eftir að snjóflóðin féllu. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is