„Mikill heiður og hvatning“

Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra.
Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mér mikill heiður og hvatning að fá þessi verðlaun,“ segir Bergþóra Snæbjörnsdóttir, en auk Svínshöfuðs voru í flokki fagurbókmennta tilnefndar Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur og Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur. Bergþóra var einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í hitteðfyrra fyrir ljóðabókina Flórída.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir með Úrsúlu dóttur sinni. Bergþóra hlýtur verðlaunin fyrir …
Bergþóra Snæbjörnsdóttir með Úrsúlu dóttur sinni. Bergþóra hlýtur verðlaunin fyrir Svínshöfuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var mjög mikil hvatning að fá tilnefningu, ekki síst þar sem um er að ræða hvatningu frá öðrum konum í sama geira. Þarna eru sérfróðar konur að tilnefna og verðlauna bækur. Það hefur ekki veitt af í gegnum tíðina. Fjöruverðlaunin hafa gegnt mikilvægu hlutverki í því að vekja athygli á bókum kvenna og hversu lítið væri horft til kvenna í tilnefningum og verðlaunum þegar kom að Íslensku bókmenntaverðlaununum,“ segir Bergþóra, en þess má geta að Svínshöfuð er einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár sem afhent verða nú í janúar. 

Gríðarlegur heiður

„Ég er eiginlega hálforðlaus yfir þessari viðurkenningu, enda er þetta gríðarlegur heiður. Ekki síst af því að í sama flokki voru tilnefndir tveir frábærir höfundar sem skrifað hafa meistaraverk sem ég hvet alla til að lesa,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir. Auk Kennarans sem hvarf voru tilnefndar Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur og Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur. „Þetta eru svo flott verðlaun og alltaf ánægjulegt hversu mikla vinnu dómnefndirnar leggja í að veita ítarlega og faglega umsögn um allar tilnefndu bækurnar, sem er ótrúlega dýrmætt að lesa.“

Bergrún Íris Sævarsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir Kennarann sem hvarf.
Bergrún Íris Sævarsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir Kennarann sem hvarf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skorar á höfunda að skrifa barnabækur

Líkt og Bergþóra hlýtur Bergrún listamannalaun í sex mánuði í ár og því liggur beint við að spyrja hvað hún ætli að skrifa næst. „Til að hljóta listamannalaun þarf maður að skila inn ítarlegri umsókn. Vegna fjölda áskorana ætla ég að skrifa framhaldsbókina Kennarinn sem hvarf – aftur og vona að hún verði jafngóð og fyrri bókin. Ég skelli mér vestur til Ísafjarðar í vinnubúðir núna í febrúar til að einbeita mér að skrifunum,“ segir Bergrún sem harmar það hversu fáir barnabókahöfundar hlutu listamannalaun í ár. 

„Við hefðum viljað sjá miklu fleiri barnabókahöfunda á þessum lista í ár. Barnabækur eru svo mikilvægar bækur og eiga ekki að vera skrifaðar í sjálfboðaliðastarfi um kvöld og helgar. Það á að gefa barnabókahöfundum miklu meiri stuðning til að þeir hafi svigrúm til að sinna þessu af alúð og skila góðum bókmenntum til krakkanna,“ segir Bergrún og skorar á alla þá höfunda sem hlutu listamannalaun til 12 mánaða að skrifa barnabækur í ár. „Það væri ágætisádeila á það hversu fáar barnabækur munu annars koma út á næsta ári.“ 

Þakklát fyrir góðar viðtökur

„Ég er auðvitað mjög glöð yfir því að hljóta þennan gæðastimpil sem felst í þessum verðlaunum,“ segir Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir. Auk Jakobínu: Sögu skálds og konu voru tilnefndar Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur og Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir Jakobínu: Sögu skálds og …
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir Jakobínu: Sögu skálds og konu.

Í bókinni segir Sigríður frá lífi og starfi móður sinnar, Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar. „Ég var að skrifa þessa bók ekki bara fyrir mig sjálfa heldur líka til þess að hefja mömmu og hennar verk til vegs og virðingar auk þess sem ég hugsaði bókina kvennasögulega. Í mínum augum eru verðlaunin ekki bara fyrir mig heldur líka viðurkenning til handa mömmu og þeim öðrum sterkum konum sem ég er að skrifa um í bókinni,“ segir Sigríður og tekur fram að hún sé þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem bókin hefur hlotið, en bókin er jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.

„Ég varð mjög undrandi þegar hringt var í mig og mér tilkynnt um tilnefningu. Ég er sagnfræðingur að mennt og vann bókina samkvæmt þeim aðferðum sem mér voru kenndar. En af því að bókin er mjög persónuleg og ég leyfi mér ýmislegt í nálgun minni og úrvinnslu, þá var ég ekkert viss um að þessi bók myndi flokkast sem fræðibók. Ég er aldrei að skrifa mig inn í einhverjar kategóríur heldur skrifa bara eins og mig langar að skrifa,“ segir Sigríður sem fór að leggja drög að bókinni árið 2015. 

Ítarlegar er rætt við alla þrjá verðlaunahafa í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is