Stórhríð, stormur og talsverð ofankoma á Vestfjörðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Norðlægar áttir eru ríkjandi á landinu og enn er stórhríð á Vestfjörðum, stormur og talsverð ofankoma. Vindur er heldur hægari í öðrum landshlutum. Það dregur síðan úr vindi og úrkomu er líður á daginn og kvöldið.

Á morgun og fram á laugardag er von á hægum vindum og éljum eða skúrum, einkum á sunnan- og vestanverðu landinu. Á sunnudag nálgast síðan næsta lægð með allhvössum vindi, hlýindum og rigningu, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á Vestfjörðum hefur appelsínugul viðvörun verið í gildi undanfarna daga og gildir hún til klukkan 15 í dag. „Norðan 15-23 m/s, hvassast á heiðum. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Búast má við samgöngutruflunum.“

Við Breiðafjörð hefur gul viðvörun verið í gildi frá klukkan 3 í nótt og gildir til hádegis. „Norðan 15-20 m/s en hægari á Snæfellsnesi. Snjókoma, einkum austan til og skafrenningur með lélegu skyggni. Búast má við samgöngutruflunum.“

Strandir og Norðurland vestra — þar hefur gilt gul viðvörun frá klukkan 3 í nótt og gildir til klukkan 15. „Norðan 13-20 m/s, hvassast vestan til.  Snjókoma og skafrenningur með takmörkuðu skyggni. Búast má við samgöngutruflunum.“

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðan 15-25 m/s, hvassast í vindstrengjum við fjöll, en hægari austan til. Slydda eða snjókoma um norðanvert landið, annars þurrt. Dregur úr vindi og úrkomu í dag, fyrst austan til.

Norðlæg átt, víða 8-13, í kvöld og dálítil él, en þurrt á sunnanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Austlæg átt, 5-13 m/s, á morgun, en hæg breytileg átt norðaustan til. Slydduél eða skúrir á suðurhelmingi landsins en annars úrkomulítið. Hiti um og yfir frostmarki með suðurströndinni en vægt frost norðan til.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt 5-13 m/s, dálítil él eða slydduél, einkum sunnan og vestan til. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Vestlæg átt 8-15 m/s og él, en yfirleitt þurrt á austanverðu landinu. Frost 0 til 6 stig.

Á laugardag:
Hæg vestlæg átt og bjartviðri, en stöku él vestast á landinu. Frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins. Vaxandi suðlæg átt, þykknar upp og hlýnar um vestanvert landið með deginum.

Á sunnudag:
Hvöss sunnan- og suðvestanátt. Rigning, talsverð rigning sunnan til á landinu en úrkomuminna norðaustan- og austanlands. Hiti 3 til 8 stig.

Á mánudag:
Allhvöss eða hvöss vestanátt með éljum á vesturhelmingi landsins, annars þurrt. Kólnandi.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga vestlæga eða breytilega átt, bjartviðri og úrkomulítið. Kalt í veðri.

mbl.is