„Það titraði allt og skalf“

Snjóflóðið sem féll gegnt Suður­eyri (Norður­eyr­ar­hlíð) skapaði flóðbylgju sem fór …
Snjóflóðið sem féll gegnt Suður­eyri (Norður­eyr­ar­hlíð) skapaði flóðbylgju sem fór yfir bæ­inn. Varðskipið Þór, þaðan sem myndin er tekin, er nú á leið til Flat­eyr­ar með vist­ir og búnað vegna snjóflóðanna sem féllu á Flat­eyri og Súg­andafirði. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður var stödd heima hjá sér á Hjallavegi á Suðureyri þegar snjóflóð féll í Súgandafirði til móts við Suðureyri, í Norðureyrarhlíð, skömmu fyrir miðnætti í gær. Flóðbylgja skall á bænum eftir flóðið og segist Lilja Rafney hafa fundið vel fyrir kraftinum. „Það titraði allt og skalf og það heyrðust drunur þegar hlíðin springur hinum megin í firðinum,“ segir Lilja Rafney í samtali við mbl.is 

„Mitt hús er komið í kaf,“ segir Lilja Rafney og segist ekki muna eftir öðru eins síðan í snjóflóðunum 1995. „Þetta minnir á það og maður fær vonda tilfinningu fyrir hvað kom þá fyrir okkar nágranna í þorpunum.“ 

Foreldrar Lilju Rafneyjar og tvær systur voru í húsum þar sem flóðið féll en sjór gekk upp á hús systur hennar. „Það var mikið högg á húsið og mjög óhuggulegt að upplifa fyrir hana og aðra sem urðu fyrir þessu. Þau fluttu sig annað í nótt til að gista þar sem menn óttuðust að það gæti komið meira úr hlíðinni hérna hinum megin. Það er mikill kraftur í svona flóðbylgjum sem verða þegar snjór fellur úr hlíðinni hérna hinum megin í sjóinn.“

Kort/Kristinn Garðarsson

Flóðbylgjan hefði getað tekið með sér fólk

Lilja Rafney segir morgunljóst að mannslíf hefðu verið í meiri hættu ef flóðið hefði fallið á öðrum tíma sólarhrings. „Ef þetta hefði skeð á þeim hluta dags sem fólk er á ferðinni, þó svo að fólk sé sem minnst á ferðinni í svona leiðindaveðri, hefði flóðbylgja eins og þessi í nótt tekið með sér fólk og hreyft við bílum.“

Hún segir að tilefni sé til að skoða aðstæður betur á Suðureyri með tilliti til snjóflóðavarna í kjölfar flóða gærkvöldsins. „Hús hafa ekki verið rýmd vegna flóðbylgna vegna flóða hinum megin í firðinum, mér finnst þurfa að athuga það betur.“ 

Enn er mik­il snjóflóðahætta á norðan­verðum Vest­fjörðum og app­el­sínu­gul viðvör­un í gildi og gild­ir hún til há­deg­is.„Það er enginn á ferðinni nema björgunarsveitin. Það skefur enn þá hérna og veðrið er ekki gengið niður. Það er enn þá skafrenningur en ekki kannski eins mikill bylur og hefur verið síðustu tvo daga,“ segir Lilja Rafney, sem hyggst halda kyrru fyrir áfram.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður býr á Suðureyri og segir hún …
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður býr á Suðureyri og segir hún aðstæður eftir snjóflóðin sem féllu í nótt óneitanlega minna á snjóflóðið sem féll fyrir 25 árum, nánast upp á dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is