„Þau unnu kraftaverk hérna í nótt“

Björgunarmiðstöðin á Flateyri.
Björgunarmiðstöðin á Flateyri. Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson

„Þau unnu kraftaverk hérna í nótt, þau sem voru komin hérna á undan okkur,“ segir Auður Ólafsdóttir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og félagi í áfallateymi Rauða krossins, í sam­tali við mbl.is.

Hún kom til Flateyrar frá Ísafirði með varðskipinu Þór nú síðdegis ásamt þremur öðrum úr áfallateyminu. Sú fimmta er búsett á Flateyri og hefur hlúð að íbúum ásamt björgunarsveitum og fleirum frá því snjóflóðin féllu í gærkvöldi.

Það hefur verið svolítið rennerí hérna í gegnum fjöldahjálparstöðina, fólk hefur verið að koma að fá sér kaffi og spjalla. Heilt yfir þá gengur allt bara glimrandi vel og frábært starf sem þau höfðu unnið hérna áður en við komum. Þetta eru fagmenn fram í fingurgóma,“ segir Auður.

Hún telur að áfallateymið sé búið að ná til allra sem á þurfa að halda, þeirra á meðal flóttafólksins frá Sýrlandi sem er búsett á Flateyri, sem og nemendur í lýðháskólanum sem þurftu að rýma húsnæði sitt.

Fjöldahjálparstöðin verður áfram opin í nótt og verður boðið upp á áfallahjálp að minnsta kosti fram eftir degi á morgun. „Við erum fimm sem erum í þessu áfallahjálparteymi. Við erum akkúrat að fara að setjast niður núna og skipta með okkur vöktum svo við keyrum okkur ekki í kaf. Við höldum úti þessari þjónustu fyrir þá sem þurfa eða vilja, alla vega fram eftir degi á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert