Þór kemur aftur til Flateyrar um ellefuleytið

Viðbragðsaðilar fara um borð í Þór í Ísafjarðarhöfn nú í …
Viðbragðsaðilar fara um borð í Þór í Ísafjarðarhöfn nú í morgun. Varðskipið mun aftur halda til Flateyrar á eftir. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Gert er ráð fyrir að varðskipið Þór sigli af stað frá Ísafirði um klukkan níu með vistir og búnað vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og Súgandafirði. Með í för verða fjórir fulltrúar úr áfallahjálparteymi Rauða krossins.

Að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum, er skipið í kringum tvo tíma á leiðinni.

Eftir að Þór kemur til hafnar verður opnuð fjöldahjálparstöð á Flateyri og verða send út SMS-skilaboð til íbúa í bænum þar sem þeim verður boðið að þiggja þjónustu.

Fyrst um sinn verður stöðin opin í grunnskólanum á Flateyri.

„Við erum í nánu samstarfi við ofanflóðaeftirlit Veðurstofunnar við að meta hættuna og tryggja öryggi fólks. Við hvetjum fólk til að vera ekki mikið á ferðinni og fylgjast með tilmælum frá yfirvöldum,“ segir Hlynur Hafberg.

Enn er mik­il snjóflóðahætta á norðan­verðum Vest­fjörðum og app­el­sínu­gul viðvör­un í gildi og gild­ir hún til há­deg­is.

mbl.is