Fyllt á hillur verslana á Ísafirði í morgun

Rifið utan af vörubrettum í verslun Nettó á Ísafirði í …
Rifið utan af vörubrettum í verslun Nettó á Ísafirði í morgun. mbl.is/Arnar Þór

Starfsmenn Nettó á Ísafirði voru önnum kafnir við að raða vörum í hillur þegar blaðamenn mbl.is bar þar að garði skömmu fyrir hádegi í dag, enda barst fyrsta vörusendingin landleiðina að sunnan til Ísafjarðar í heila sex daga í morgun.

Vegirnir um Ísafjarðardjúp og Steingrímsheiði hafa verið ófærir og hamlað vöruflutningum síðustu vikuna, en íbúi á Ísafirði sem blaðamaður ræddi við í morgun sagði að það hefði nú ekki verið neitt stórmál þótt hillur verslana á Ísafirði hefðu verið orðnar hálftómlegar hvað ferskvöru varðaði. Vestfirska mjólkin hefði komist sína leið frá Örnu á Bolungarvík.

Í vikunni þurfti að grípa til lokana á Skutulsfjarðarbraut, akveginum meðfram Pollinum á Ísafirði sem tengir bæjarhlutana tvo, vegna snjóflóðahættu. Þá komst fólk ekki á milli bæjarhluta. En Ísfirðingar komust þó allir í verslanir, enda er það svo að matvörubúðir bæjarins eru hvor í sínum bæjarhlutanum.

Búið er að opna alla vegi á milli bæjarkjarna á norðanverðum Vestfjörðum, utan Flateyrarvegar, en þar er unnið að mokstri og til stendur að opna veginn núna eftir hádegið.

mbl.is