Grenndarstöðvar í borginni endurgerðar

Grenndargámar.
Grenndargámar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð hefur samþykkt þrjár tillögur að deiliskipulagi fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti, Sigtún og á Skólavörðuholti, við austurenda Hallgrímskirkju við Eiríksgötu.

Grenndarstöð sem er núna á stórbílastæði við Arnarbakka til móts við Maríubakka verður færð aðeins til og verður framvegis staðsett á núverandi snúningshaus við Leirubakka. Yfirborð stöðvarinnar verður hellulagt og svæðið afmarkað með skjólgirðingu.

Á Skólavörðuholti, við austurenda Hallgrímskirkju, verður svæðið undir grenndarstöðina endurgert. Yfirborð stöðvarinnar verður hellulagt og svæðið afmarkað með skjólgirðingu. Upplýsingaskilti um grenndarstöðina verður staðsett við Eiríksgötu.

Við Sigtún 30 er gert ráð fyrir að hluti af grassvæði á milli gangstéttar og eystri lóðamarka Sigtúns 30 verði breytt í nýja grenndarstöð. Til að tryggja aðgengi verða tvö bílastæði við stöðina fjarlægð og fækkar bílastæðum við það úr 14 í 12.

Grenndarstöðvar eru afmarkaðir staðir þar sem einstaklingar geta skilað flokkuðum úrgangi í viðeigandi gáma. Markmið stöðvanna er að auka flokkun á endurvinnanlegum efnum og draga þannig úr urðun.

Á öllum grenndarstöðvum eru gámar undir pappír og plast og á flestum þeirra eru nú komnir gámar undir gler. Á mörgum grenndarstöðvum reka Grænir skátar gáma undir drykkjarumbúðir með skilagjaldi og Rauði krossinn gáma undir fatnað og annan textíl.

mbl.is