Hótaði að drepa nágranna sína

Óskað var eftir aðstoð lögreglu snemma á tólfta tímanum í gærkvöldi vegna manns í annarlegu ástandi sem hótaði að drepa nágranna sína í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Á sjöunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Árbæ, en þar hafði ölvaður maður veist að ökumanni eftir að sá síðarnefndi hafði gert athugasemd við að sá ölvaði stóð úti á akbrautinni og var fyrir.

Lögreglan hafði uppi á árásarmanninum, sem hafði reynt að fela sig í nærliggjandi atvinnuhúsnæði. Áverkar ökumannsins voru minni háttar, en lögregla væntir þess að árásin verði kærð.

Með fíkniefni, þýfi og hnúajárn í fórum sínum

Á öðrum tímanum í nótt handtók lögregla karlmann á þrítugsaldri fyrir að brjótast inn í bifreiðar og ógna tilkynnanda, sem kom að honum, með hnífi. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu. Við leit fundust á honum meint fíkniefni, þýfi og hnúajárn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert